Brimfaxi – gildi aflareglu

Í Brimfaxa – félagsblaði Landssambands smábátaeigenda sem út kom í dag ritar Örn Pálsson eftirfarandi leiðara:

„Það hefur vart farið fram hjá þér lesandi góður að mikill völlur hefur verið á Hafrannsóknastofnun nú í haust. Í tilefni 40 ára afmælis stofnunarinnar var í samvinnu við sjávarútvegsráðuneytið haldið málþing um nýliðun og framleiðslugetu þorskstofnsins. Sérfræðingar Hafró drógu þar upp biksvarta mynd af ástandi þorskstofnsins og ítrekuðu óskir sínar um að viðmið aflareglu yrði lækkað.
Sjávarútvegsráðherra tók ekki undir svartsýnina með Hafró. Hann sagði ástandið ekki dökkt og kvaðst ekki ætla að lækka viðmið aflareglunnar. Öðruvísi en mér áður brá!, og kallar fram vangaveltur um hvort sjávarútvegsráðherra muni taka ákvörðun um hver stærð veiðistofns er, útfrá fleiri gildum en koma fram í gögnum Hafró. Það hefur jú verið gagnrýnt að ekki hafi verið tekið tillit til skoðana þeirra sem starfa á vettvangnum allan ársins hring.

Að loknu málþingi fór Hafrannsóknastofnun í mikla fundarherferð. Alls var fundað á 12 stöðum og á stofnunin þakkir skyldar fyrir að bera fróðleik sinn út úr húsi. Fréttir af fundunum báru þess glögg merki að mikill áhugi er á málefninu.

Fjölmargir hafa velt fyrir sér gildi aflareglunnar.
Hafrannsóknastofnun hefur gert mikið úr því að „slæmt“ ástand þorskstofnsins sé vegna þess að veitt hafi verið umfram ráðgjöf stofnunarinnar. Rétt er að hver og einn meti slíkt og hafi þá m.a. til hliðsjónar hver „umframveiðin“ hefur verið.
Síðustu 5 fiskveiðiár, 2000 – 2005 nam hún að meðaltali 12 þúsund tonnum á ári sem jafngildir 6%. Þegar tekin eru 10 fiskveiðiár 1995 – 2005 eru tölurnar 0-4-11 tonn að meðaltali einnig 6%.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessar tölur gefa ekki tilefni til þess að lykillinn að uppbyggingu þorskstofnsins sé að lækka viðmið á aflareglu í átt að 20% af veiðistofni. Þá er það ábyrgðalaust í meira lagi að fullyrða að „umframveiði“ sé ástæða þess að uppbygging hafi mistekist, það að veiðin hafi ekki verið 25% af veiðistofni á hverju ári.
Hafrannsóknastofnun verður að koma með haldbærari rök.

Fróðlegt er að bera saman uppbyggingu þorsks- og ýsustofna undanfarinna 10 og 5 ára.
Fiskveiðiárið 6-19-1995 heimilaði Hafró að veiða 155 þúsund tonn af þorski og 55 þúsund af ýsu. Á sl. ári var þorskurinn kominn í 205 þúsund tonn (32% aukning) og ýsan í 90 þúsund (63% aukning). Á þessum árum var „umframveiði“ ýsu lítillega meiri en í þorskinum.
Fiskveiðiárið 1-20-2000 heimilaði Hafró að veiða 220 þúsund tonn af þorski og 30 þúsund af ýsu. Miðað við sl. ár hefur tillaga stofnunarinnar í þorski lækkað um 7%, en aukist í ýsu um 200%. Þetta tímabil var „umframveiði“ einnig lítið eitt meiri í ýsu en þorski.

Rétt er að hlutaðeigandi aðilar velti þessu fyrir sér áður en þeir ákveða að kenna öðrum um.

Kæru félagsmenn! Nú er 20. starfsári LS að ljúka. Það hefur verið viðburðarríkt líkt og fyrri ár, en ólíkt þeim að því leyti að veiðikerfum smábáta hefur fækkað og hærra hlutfall félagsmanna býr við meiri festu varðandi veiðiréttindi en verið hefur.
Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári um leið og samstarfið á árinu er þakkað.“

Örn Pálsson framkvæmdastjóri