Ferðalag trillukarla á Höfn rétt að hefjast

Trillukarlar í Hrollaugi – Félagi smábátaeigenda á Höfn – láta ekki að sér hæða. Í haust ákváðu þeir að kynna sér smábátaútgerð og lífshætti trillukarla á Írlandi. Þannig að þægindin yrðu sem mest á ferðalaginu, ákváðu þeir að leigja sér einkaþotu. Hún kom til Hafnar og pikkaði upp Hrollaugsmenn og maka þeirra og flaug með þá til Írlands. Þar dvöldust þeir í góðu yfirlæti í vikutíma.

Heim var hins vegar flogið í tveimur áföngum, því ekki mátti skilja skoska trillukarla útundan. Millilent var á eyjunni Ljóðhús (tilheyrir Suðureyjum) þar sem Hrollaugsmönnum var tekið með kostum og kynjum. Á Höfn var svo lent degi fyrir sjávarútvegssýninguna 5. september.

Nýjustu fréttir af þeim Hrollaugsmönnum bera það með sér að ýmislegt hefur verið skeggrætt í ferðinni. Tekið var eftir því að þeir voru afar leyndardómsfullir í fari og grunaði menn ýmislegt. Nú hafa þeir opnað sig og upplýst það sem fram fór yfir Atlantshafinu. Jú strákar! Við verðum ekkert upp á neina komnir í framtíðinni. Það er ekki okkar stíll. Við kaupum okkur flugfélag.

Sjá nánari fréttir af stórhug Hornfirðinga:
http://www.hornafjordur.is/frettir/04-01-2006/nr/3107

Hofn_100-2005-09_1-1-24.jpg