Í málstofu Hafró nú í hádeginu hélt Höskuldur Björnsson sérfræðingur erindi undir tiltinum „Þróun úthvafsrækjuveiða og samkeppni þorsks við rækjuflotann“.
Margt fróðlegt kom fram um þekkingu og vanþekkingu manna á kvikindinu sem Íslendingar byrjuðu ekki að nýta af alvöru fyrr en seint á 8. áratugnum. Það sama verður ekki sagt um þorskinn. Þó hlutfall rækju á matseðli hans sé nokkuð mismunandi, gumsaði hann í sig amk 100 þúsund tonnum af rækju á síðasta ári, sem er ríflega tuttugufalt það sem íslenskir sjómenn lönduðu. Á árunum 1996 og 1997 fór þetta át hans í heil 250 þúsund tonn. Veiði rækjuflotans árið 2005 var sú minnsta frá 1980 og veldur ekki hvað síst lágt afuðraverð.
Djúprækjusjóðin er áætluð um 50 þúsund ferkílómetrar og er að mestu kaldasti hluti landgrunnsins. Dýpið á þessari slóð er frá 200 metrum og allt niður undir 500 metra.
Verulegur munur er á því hversu hátt hlutfall rækjan er í fæðu þorsksins eftir stærð hans. Þannig er hún um 14% fæðu minnsta þorsksins en einungis 4% hjá þeim stærsta. Að meðaltali er rækjan um 5% heildarfæðunnar, en talið er að þorskurinn þurfi til sín um 2 milljónir tonna á ári. Á undanförnum árum hefur hlutfall loðnu og rækju farið minnkandi í íslenskum þorskmögum.
Fram kom hjá Höskuldi að horfur fyrir komandi ár væru ekki uppörvandi. Trúlega yrði mikið af þorski á slóðinni og nýliðun léleg. Þá væri ekkert spaug að stjórna þessum veiðum og athyglisvert var að heyra að hann mælti síst með því að stjórna rækjuveiðunum með aflamarki. Slík aðferðafræði gæti reynst illa. Mun auðveldara væri að nota sóknarstýringu.