Er búið að veiða síðustu loðnuna að sinni?

Við heimasíðuna hafði samband einn af stofnendum Landssambands smábátaeigenda Sigurður Gunnarsson sjómaður og náttúruunnandi á Húsavík. Hann ræddi um loðnuna og sagði sér það mikið áhyggjuefni að hún fyndist ekki. Vitanlega vonaði hann eins og aðrir að hún mundi skyndilega láta á sér kræla, því vissulega væru dæmi um að hún léti bíða eftir sér fram í febrúar. Nú væri hins vegar minni líkur en oft áður að slíkt gerðist.Sigurdur_Gunn1-2508-100.jpg
Sigurður benti máli sínu til stuðnings á að ekki hefði mælst nein loðna í leiðangrum Hafró og þá væri nú að hefjast þriðja árið í Skjálfandanum sem enginn svartfugl væri sjáanlegur.
Hann tók langvíuna sem dæmi, en loðnan er henni lífsnauðsynleg sem fæða: „hún er varla sjáanleg og varp hennar sl. tvö sumur í algjöru lágmarki“.
Sigurður sagði það ekki óalgengt að húsvískir sjómenn hefðu skotið svartfugl í þúsundavís í tugi ára, nú væri hins vegar svo komið að ekki fengist í matinn.

Í samtalinu vék hann að skyndilegum lokum síðustu loðnuvertíðar og sagði að það setti að sér hroll þegar það flögraði gegnum huga hans að kannski hefði hún verið veidd upp og það tæki mörg ár að byggja stofninn upp til fyrra horfs. Sigurður sagðist ekki kaupa þá skýringu að loðnan, fiskur sem vex upp í köldum sjó, léti sér muna um að stinga sér í gegnum kaldsjávartungu við S-Austurlandið, „hann hefði ekki snúið við við Kvískerin vegna snarpra hitaskila í sjónum. Það gerði fiskur einfaldlega ekki sem væri á leið til hrygningar á sínar stöðvar, eitthvað annað væri þá þess valdandi ef svo hefði verið“, sagði Sigurður.

Sigurður sagði að ef sú hrollkalda tilhugsun væri staðreynd að loðnan væri nú uppurin, væri eins gott að fara að pakka saman því þá væri skammt að bíða að fiskurinn dæi úr hor.

Sigurður rifjaði upp greinar úr sænska Náttúrufræðingnum frá 1989, þar sem fjallað hefði verið um þá efnahagslegu „krísu“ sem þá var í Barentshafi. Loðnan hefði klárast 1987, eftir gríðarlega ofveiði árin á undan. Í greininni væru sláandi myndir úr Bjarnarey sem sýndu bjargsillu þakta langvíu, en árið síðar 1987 var sillan nánast auð, það sama var uppi á teningnum 1988. Í kjölfar ætisskorts hefði langvían því horfið úr bjarginu, „þessi staðreynd er ekki uppörvandi þegar spáð er í framtíð loðnuveiða hér við land“ sagði Sigurður.

Í kjölfar loðnubrests í Barentshafi hafi allt líf í því farið niður á við í nokkur ár, þannig hafi þorskur varla sést, en blessunarlega hafi hann blossað upp nokkrum árum síðar.