Hrygningastopp – friðun þorsks og skarkola?

Á heimasíðu Fiskistofu er frá því greint að „nú styttist í árlega stöðvun veiða á grunnslóð, þ.e. „fæðingarorlof“ þorsks og skarkola. Þann 1. apríl hefst friðun á svokölluðu Vestursvæði sem eru nærmið undan Suður- og Vesturlandi.“

Athygli vekur að Fiskistofa virðist ganga út frá því að sjávarútvegsráðherra hafi ákveðið að hafa „hrygningastopp“ með óbreyttum hætti og forveri hans. Ráðuneytið hefur hins vegar ekki gefið út neina fréttatilkynningu um veiðbann eins og venja hefur verið og því allsendis óvíst um þennan þátt í stjórn fiskveiða.

Það er eðlilegt að hugleiðingar félagsmanns sem hafði samband við skrifstofuna séu hér viðraðar. Hann velti því fyrir sér hvort eftirlitskerfið væri búið að taka yfir stjórnunina. Fannst það yfirgangur hjá Fiskistofu að ganga út frá því að nýr sjávarútvegsráðherra mundi ekki gera breytingar á þessum þætti í stjórnun fiskveiða, sem væru jú alls ekki óumdeildur.