Þann 17. febrúar s.l. birtist eftirfarandi grein í Fiskifréttum eftir Arthur Bogason:
Það styttist óðum í grásleppuvertíðina 2006. Af Norðurlandi berast fréttir um að talsvert hrognkelsi sé að renna upp að landinu. Einhverntíma hefði slíkur fyrirboði espað veiðieðli og kætt fiskimenn. Nú er öldin önnur. Söluhorfur grásleppuhrogna eru slæmar og framleiðendur telja sig ófæra um að greiða það fyrir hrognin sem flestir veiðimanna telja algert lágmark.
Það eru ekki mörg ár síðan að kavíarframleiðendur töldu eðlilegt að greiða 700 Evrur fyrir tunnu af grásleppuhrognum. Þá töldu veiðimenn það verð of lágt. Verðin sem heyrast nú, rétt fyrir komandi vertíð, eru 5 – 600 Evrur, nær lægri tölunni ef eitthvað er. Á sama tíma hefur gengi íslensku krónunnar styrskt um tugi prósenta.
Nú er handhægast að skella skuldinni alfarið á framleiðendur grásleppukavíars. Svo einfalt er þetta ekki því fleira hefur breyst á undanförnum árum. Það er ekki ýkja langt síðan að stóru kavíarframleiðendurnir sögðu stórmarkaðskeðjunum í Evrópu hvað þeir þyrftu að fá fyrir vöruna. Nú hefur þetta snúist við. Sístækkandi og valdameiri stórmarkaðskeðjur tilkynna hvað þær eru tilbúnaar að borga. Af ástæðum sem eru nokkuð augljósar, gengur kavíarframleiðendum sínu betur að eiga við fiskimenn en risafyrirtæki.
En framleiðendur kavíars mega hinsvegar eiga annað: Áhugi þeirra á að stækka núverandi markað grásleppukavíars virðist heldur af skornum skammti. Á nýafstöðnum alþjóðlegum fundi um grásleppumál sem kallaður er LUROMA og haldinn árlega rétt fyrir grásleppuvertíð, beindi ég þeirri spurningu til kavíarframleiðendanna hvort þeir hefðu áhuga á að slást í samstarfsverkefni fiskimannasamtakanna á Nýfundnalandi, Grænlandi, Íslandi og Noregi um að reyna að stækka neytendamarkaðinn. Enginn gaf sig fram. Þá spurði ég hvort verið væri að gera tilraunir með nýjar uppskiftir sem færu hugsanlega betur í bragðlauka neytenda en hin útjaskaða 40 ára gamla uppskrift sem allstaðar fyrirfinnst. Svarið var nei. Hvort hér er um áhugaleysi að ræða eða uppgjöf eftir tilraunir á þessum sviðum virðist erfitt að ráða í.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að eina svarið við þeirri stöðu sem uppi er – því hún er síður en svo ný af nálinni – sé að stækka neytendamarkaðinn. Hann hefur staðið í stað og minnkað ef eitthvað er undanfarin 15 – 20 árin. Nú hefur Evrópa opnast til austurs og Kína á hraðbraut til vestrænna hátta. Þá eru sjálfar fiskæturnar miklu í austri, Japanir, ekki á lista yfir neytendur grásleppuhrogna. Hér hljóta að liggja tækifæri, sé betur að gáð og svar framleiðenda við ofríki stórmarkaðskeðjanna.
Eina vopnið sem fiskimenn hafa við ríkjandi aðstæður er að draga úr framboði hrogna í anda hins gamalkunna lögmáls framboðs og eftirspurnar og áhrifa þess á verð. Þessi staða er vægast sagt sérkennileg. Á sama tíma og fiskistofnar í Norður Atlantshafi eru flestir hverjir á gjörgæsludeild opinberra stofnana standa grásleppuveiðimenn frammi fyrir þeirri staðreynd að þeir gætu veitt mun meira en núverandi markaður tekur við.
Á síðasta ári tóku samtök veiðimanna á Nýfundnalandi, Grænlandi, Íslandi og Noregi sig saman um að reyna að draga úr veiðunum á vertíðinni 2005. Ástæðan var vitaskuld há birgðastaða frá árinu 2004 sem var þriðja mesta aflaár grásleppuveiða í heiminum frá upphafi. Í samkomulaginu var miðað var við 28 þúsund tunnu heildarveiði, en talið er að markaðurinn þoli um 33 þúsund tunnur. Þessi fyrsta tilraun bar meiri árangur en margan grunaði. Hefði ekkert verið að gert, hefði veiðin að öllum líkindum endað í 45 þúsund tunnum, en varð 0-5-32 tunnur, eða 38% lægri. Í ljósi þessa endurnýjuðu samtökin samkomulag sitt frá fyrra ári. Öllum sem að þessu samkomulagi standa gera sér grein fyrir veikleika þess. Ekki þarf annað til en mikla veiði í stuttan tíma á einhverju svæðanna.
Í ljósi þess að í hönd fer erfið grásleppuvertíð hvað sölumál varðar, vil ég beina því sem aldrei fyrr til veiðimanna að halda ekki til veiða fyrr en þeir hafa tryggt sölu á hrognunum. Uppsöfnun birgða hjá veiðimönnum er ávísun á enn verra ástand. Meðan núverandi neytendamarkaður hjakkar í sama farinu er eina ráð veiðimanna að gera það sem í þeirra valdi stendur til að koma á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Það lögmál gildir um grásleppuhrogn sem aðrar vörur.