Hámark á krókaaflahlutdeild – sjávarútvegsnefnd leggur til lægri prósentur

Sjávarútvegsnefnd Alþingis hefur afgreitt frumvarp sjávarútvegsráðherra, um hámark krókaaflahlutdeildar einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, til 2. umræðu.

Í áliti nefndarinnar segir eftirfarandi:
„Fram komu athugasemdir um að prósentuhlutföllin í 2. gr. frumvarpsins væru of há. Aflaheimildir smábátaflotans ættu sér sterkar sögulegar rætur í einstaklingsútgerð og mikilvægt væri að veiðiheimildir smábátanna söfnuðust ekki á örfáa báta. Nefndin getur tekið undir það og leggur til að prósentuhlutföll verði lækkuð þannig að hámark á samanlagða krókaaflahlutdeild verði 4% í þorski, 5% í ýsu og 5% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar þeirra tegunda sem krókaaflahlutdeild er úthlutað í. Hér er komið að hluta til móts við umsögn stjórnar Landssambands smábátaeigenda. Þá leggur nefndin til að þeir aðilar sem hugsanlega eru komnir upp yfir fyrrnefnd viðmiðunarmörk fái aðlögunartíma til 1. september 2009 til að flytja af skipum sínum krókaaflahlutdeildir í þeim tegundum sem þarf til þess að rúmast innan ramma ákvæðisins.“

Í frumvarpi sjávarútvegsráðherra sem nefndin leggur nú til að verði breytt voru framangreind hámörk 6% í þorski, 9% í ýsu og 6% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar.

Nefndarálitið í heild:
http://www.althingi.is/altext/132/s/0873.html