Fiskur eða steik á sunnudögum?

Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum sl. föstudag, 3. mars.

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neytendum á höfðuborgarsvæðinu að allt í einu hafa sprottið upp hér glæsilegar fiskbúðir. Fylgifiskar riðu á vaðið og nú hafa rótgrónir fiskkaupmenn einnig tekið sig saman í andlitinu og sýnt hvað í þeim býr. Í þeim fiskbúðum sem þannig hafa fengið andlitslytingu er einnig boðið upp á margar fiskitegundir og tilbúna fiskrétti. Ein þeirra fiskbúða sem undirritaður verslar í hefur þannig breyst á örfáum mánuðum úr því að vera með slorugt gólf, þar sem boðið var upp á ýsu og þorsk, stundum kola og lúðu og yfirleitt lágu nokkrir signir fiskar hjá, svona til að lífga upp á borðið! — í það að vera rúmgóð og snyrtileg
fiskbúð með glæsilegu fiskborði. Jafnvel eru dæmi um að boðið sé upp á smakk meðan beðið er. Í fiskborðinu er allt sem hugurinn girnist í fiski, úrval fiskrétta, fjölmargar tegundir og afgreiðslufólk reiðubúið til að leiðbeina við val á því hvað keypt er. Og það var eins og við manninn mælt, aðsókn hefur stóraukist, fjölmargir við afgreiðslu á álagstímum og hafa vart undan.

Ímynd fisksins

Margir líta á það sem lífsstíl að borða fisk. Mín skoðun er sú að þess sé ekki langt að bíða að fiskurinn skáki sunnudagssteikinni út af borðinu. Spurt verði: Hvort eigum við að hafa læri eða fisk á sunnudaginn? En áður en kemur að því að slíkri spurningu verði varpað fram á sem flestum heimilum þarf fleira að koma til en átak fisksala í að flikka upp á búðirnar. Það þarf að auglýsa fiskinn. Fiskurinn á betra skilið en svart-hvíta feitletrun þar sem í rammanum stendur:

„Súr hvalur – 30% afsláttur af harðfiski og hákarli“

svo dæmi sé tekið. Þegar ungviðið las þetta á borðinu hjá mér kom úr munni þess ojjjj.

Fisksalar verða að höfða til ungs fólks, kynslóðarinnar sem liggur í skyndibitapakkanum. Ímyndarsérfræðingar þurfa að leggja sig alla fram við að gera fiskinn spennandi. Segja frá því hve fiskurinn sé ódýr. Kannski finnst það ekki öllum, en ef við berum saman beinlaust kjöt, t.d. kjúklingabringur á 0-3-2 kr/kg, er fiskur ódýr. Kílóið af roð og beinlausum þorski eða ýsu er á 0-0-1 krónur. Auglýsa þarf með stæl og leggja áherslu á hollustuna svo dæmi séu tekin.

Fiskneysla hefur minnkað um 30%

Á liðnum mánuðum hefur undirritaður margsinnis hugsað um þessi mál, en nú er komið að því að hugsa upphátt og ýta enn frekar við málefninu. Það er gert vegna frétta sem komu mér mjög mikið á óvart. Í Ægi 1. tbl. þessa árs er grein eftir Emilíu Martinsdóttur og Kolbúnu Sveinsdóttur sem starfa á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Í greininni „Hvert stefnir fiskneysla Íslendinga?“ koma fram sláandi staðreyndir:

? Í dag borðar yngra fólk sjaldnar fisk en fólk í eldri aldurshópum.
? Fiskneysla hefur minnkað um a.m.k. 30% á fáum árum.
? Fiskneysla meðal ungs fólks hefur minnkað mest.

Hér eru á ferðinni mjög alvarlegir hlutir sem vert er að veita athygli. Unga fólkið vex úr grasi og stofnar heimili, það kaupir í matinn. Það er ekki vant því að borða fisk og því er hætt við að hann verði sjaldan á matseðlinum. Þessu verðum við að breyta, halda þarf uppi linnulausum áróðri fyrir fiskinum.

Gæðin ekki í lagi

Það eru sameiginlegir hagsmunir allra í sjávarútvegi að fiskur sé eftirsótt matvara. En það eru margar hliðar á þessum málum og í stuttri grein verður ekki tæpt á mörgum þeirra. Sameiginlegt með vinsælum matvörum er að gæðin eru í lagi. Því miður kemur það stundum fyrir að eitt flakanna sem keypt eru bragðast ekki eins og búist var við. Slíkt er auðvitað óþolandi og leiðir til þess að aftur þarf að sannfæra nýjan viðskiptavin eða börnin um ágæti fisksins. Á einhverju stigi brást eitthvað. Aðilar vönduðu sig ekki nægilega vel, einn hlekkur í keðjunni slitnaði. Allir sem koma að því ferli, þegar fiskur er dregin úr sjó og þar til hann er borinn fyrir neytandann, #2þurfa að vanda sig. #1Þeir þurfa að bera virðingu fyrir fiskinum. Jafnvel væri það lausn að gæðavottunarkerfið næði alla leið og uppfylla þyrfti ströng skilyrði til að fá að meðhöndla gullið okkar.

Hamborgari eða fiskur?

Sú skoðun efldist mjög nýverið þegar ég lét það eftir sonum mínum að fara með þeim á skyndibitastað. Hamborgari var þeirra pöntun, en mér tókst að krækja í fisk. Sú krækja fékk mig til að hugsa um samsæri, svo reiður var ég. Hvað var eiginlega verið að bjóða upp á. Enginn vafi er á, að hvaða unglingur sem væri og hefði fengið slíkt óæti á diskinn, myndi ekki panta sér fisk næstu mánuðina. Hann myndi frekar velja hamborgarann.
Betra væri að slíkir staðir hefðu ekki leyfi til að selja fisk.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.