Erlendum aðilum verður heimilaður rekstur uppboðsmarkaða sjávarafla.

Sjávarútvegsráðherra, Einar Kristinn Guðfinnsson, hefur mælt fyrir frumvarpi um breytingar á lögum 5-20-79, um uppboðsmarkaði sjávarafla.
Ástæður þess að breyta þarf svo nýjum lögum er að komið hefur í ljós að samkvæmt EES samningnum er ekki heimilt að skilyrða leyfi til reksturs uppboðsmarkaða sjávarafla við íslenska ríkisborgara eins og gert er í lögum um þá.

Í athugasemdum með frumvarpinu segir m.a.:
„Í 31. gr. EES- samningsins er kveðið á um svokallaðan staðfesturétt en hann felur í sér rétt fyrir einstaklinga og lögaðila í einu aðildarríki EES til að stunda atvinnustarfsemi í öðru aðildarríki með sömu skilyrðum og einstaklingar og fyrirtæki í því ríki. Í 40. gr. EES-samningsins er kveðið á um frjálsa fjármagnsflutninga en þar segir m.a. að engin höft skuli vera á milli samningsaðila á flutningi fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum eða nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða á því hvar féð er notað til fjárfestingar.“

Af þessum sökum er talið óheimilt að banna öðrum en Íslendingum að fá leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar sjávarafla. Samkvæmt frumvarpinu munu auk okkar geta fengið leyfi til þess, borgarar frá Evrópska efnahagssvæðinu, Sviss og Færeyjum.