Sjávarútvegsráðherra áformar lækkun á slægingarstuðli

Samhliða útgáfu reglugerðar um vigtun sjávarafla tilkynnti sjávarútvegsráðherra að nýir slægingarstuðlar yrðu á næsta fiskveiðiári. Stuðlar á þorski og ýsu yrðu lækkaðir úr 16% í 12% og 13% í ufsa.
Í Fiskifréttum 24. mars sl. er fjallað um nýja vigtunarreglugerð og fyrirhugaða breytingu á slægingarstuðlum.
Þar er m.a. haft eftir Erni Pálssyni að það hafi komið LS á óvart að:
„slægingarstuðullinn skuli hafa verið lækkaður úr 16% í 12% fyrir þorsk og ýsu og í 13% fyrir ufsa. Það er ekki lengra síðan en árið 1999 að stuðullinn var lækkaður úr 20% í 16% í kjölfar ítarlegrar athugunar. Hún sýndi að meðalhlutfall slógs í þorski árið um kring úr öllum veiðarfærum væri 16%. Það sem nú er lagt til grundvallar að fyrirhuguðum breytingum er plagg frá Hafrannsóknastofnun sem mér fannst nú ekki beint traustvekjandi enda skýrt tekið fram að þar væri aðeins um frumathugun að ræða. Til dæmis eru dragnót og troll ekki sundurgreind heldur flokkuð sem dregin veiðarfæri, þótt oftast sé mun meira inni í fiski sem veiddur er með dragnót en í troll. Þá sýnir plaggið ekki þá stuðla sem hafa verið boðaðir 1. september nk. Má þar nefna netin þar sem slóginnihaldið er 19% samkvæmt plagginu og því óneitanlega undarlegt að stuðullinn skuli færður í 12%. Auk mismunar milli veiðafæra skiptir máli hvenær árs veitt er. Þá er munur milli veiðisvæða, hvort veitt hafi verið rétt fyrir brælu eða eftir. Breyting á slægingarstuðli er því alls ekkert einfalt mál og kallar á mun meiri rannsóknir og umræðu. Mér þykir því auðsýnt að sjávarútvegsráðherra fari betur yfir málefnið, enda nægur tími þangað til boðuð breyting á að koma til framkvæmda“ sagði Örn í viðtali við Fiskifréttir.