Siglfirðingar þeir einu sem ekki „gefa“ grásleppuhrogn

„Hér á Siglufirði hefur grásleppuvertíðin gengið vel þegar hægt er að komast í netin. Þrálát norðanátt hefur þó komið í veg fyrir að við værum búnir að skila ásættanlegu magni á land. Búið er að salta í á fimmtahundrað tunna og hefur megnið að því verið sent til Svíþjóðar. Svíarnir taka þetta hjá okkur á bryggjunni og greiða 5 evrur á hvert kg fyrir innihaldið sem leggur sig á 525 evrur á tunnuna. Tryggð er sala á öllu því sem veiðist hér á Siglufirði, Fljótunum og hjá einum bát á Sauðárkróki. Miðað við 95 krónur gengið, erum við að fá um 50 þúsund fyrir tunnuna.
Því er ekki að leyna að 10. mars þegar vertíðin hófst leist okkur ekkert á verðið, en þá var evran í 84 krónum, en þetta hefur lagast nú síðustu daga“, sagði Hilmar Zophaniasson grásleppukarl á Siglufirði.

Hilmar gagnrýnir væl forsvarsmanna íslensku verksmiðjanna Vignir Jónsson á Akranesi, ORA og Fram Foods að ekki sé hægt að greiða hærra verð en 31 til 33 þúsund. Þessir aðilar hafi haft stór orð um að greiða hæsta verð, að verð taki mið af heimsmarkaðsverði, en nú er jagast í grásleppukörlum og þeir beðnir um að gefa verksmiðjunum hrognin. Hann kallar það svo þegar verð sem í boði er skilar ekki hagnaði.

Hilmar skorar á grásleppukarla að láta ekki tunnu frá sér á lægra verði en Siglfirðingar hafa gert samninga um. Hann bendir á að lágmarksverð í Noregi sé 4000 norskar krónur sem jafngildir 511 evrum, heimsmarksverðið sé því ekki milli 300 og 400 evrur eins og íslensku verksmiðjurnar 3 bjóða, heldur á bilinu 511 til 525 evrur.