Svokallaðir

Þann 21. apríl birtist eftirfarandi grein í Fiskifréttum eftir Arthur Bogason:
„Mánudagurinn er að kveldi kominn. Hann byrjaði ósköp venjulega; Ég rölti niður hringstigann um sex leytið, fór í langa og sjóðheita sturtu, dásamaði hið óþrjótandi hreina vatn og bar saman við svokallaða sturtu á hótelherbergi í Sri Lanka fyrir skömmu. Þar setti maður hvert inn/út hraðametið af öðru.
Í forstofunni lá Mogginn og mér kom í hug hvort dagurinn myndi ekki stimpla inn hjá mér nema hans nyti við, eins og eitt þjóðskáldið staðhæfði nýverið um okkur Íslendinga. Stundu síðar sat ég í eldhúskróknum með rjúkandi og rótsterkt kaffi en óvenju þunnan Mogga fyrir framan mig. Eiginlega hálfgert morgunkorn. Mánudagur í þeim gamla. Úti reis bjartur dagur, kyrrð yfir og köttur nágrannans sat sem myndastytta utan glugga.

Ég fletti blaðinu annars hugar, tók tæpast eftir íslenskum sprengitilboðum né íröskum sprengjutilræðum. Það er nú meira hvað mannskepnan er bandóð í sprengjur og sprengingar. Ég kveikti á útvarpinu og fyrr en varði las fréttaþulurinn með ámóta tilfinningaþunga og væri hann að lýsa logni fyrir löngu, að hugsanlega verði kjarnorkusprengjum varpað á hina fornu Persíu – til að kenna ærlega lexíu. Ég slökkti á viðtækinu og hélt áfram að fletta.

Þreföld afneitun

Inn undir miðju blasti við mér kunnugleg mynd – þar var á ferðinni framkvæmdastjóri LÍÚ með grein þar sem hann tekur til andsvara við Gunnlaug Finnbogason, formann smábátaeigenda á Vestfjörðum norður. Sá síðarnefndi hafði í laugardagsblaðinu haft á hornum sér vegna breytinga á slægingarstuðli nokkurra fisktegunda og meiningar um menn og málefni. Ég hóf lesturinn og fann undir niðri fyrir aðdáun á viðbragðssnerpu framkvæmdastjórans við grein sem birst hafði svo skömmu áður. En sú tilfinning hvarf skjótar en kötturinn frá glugganum. Ritsmíðin daunaði af þeirri mannfyrirlitningu og hroka sem smábátaeigendur hafa rækilega kynnst síðustu áratugi úr ranni forsvarsmanna LÍÚ. Þannig þrítekur framkvæmdastjórinn þau smekklegheit að bæta forskeytinu „svokallaðir“ þegar hann víkur að smábátaeigendum – samtímis því að halda því fram hversu „málefnalegur“ hann sjálfur sé. Þessi framsetning er í raun afneitun á smábátaeigendum. Sjálfsagt í stíl við hátíðina.

Ég lagði frá mér morgunkornið og fór í gegnum tölvuskeytin. Svaraði nokkrum og eyddi öðrum, eftir smag og behag. Undanfarið hafa mér borist furðu mörg skeyti um happdrættisvinninga einhversstaðar útí heimi. Ég gerði smá úttekt og í síðustu viku einni saman vann ég nálægt 40 milljónum dollara – og það í happdrættum sem ég hef aldrei tekið þátt í. Ótrúleg heppni og sjálfsagt ótrúleg heimska að gera enga tilraun til að nálgast þessa fjársjóði.

Á skrifstofu LS beið mín góður selskapur. Tveir félagsmenn höfðu rekið inn nefið og þessir hressu og skemmtilegu menn eyddu óbragðinu frá morgunlestrinum. Fyrir mig, veiðióðan kvótaleysing, er fró í að spjalla við slíka menn.

„Þjófapakk!!!“

Þeir hurfu á vit annarra erinda og ég á vit tölvu, síma og skrifborðs. Að stund liðinni teygði ég mig í útvarpið í gluggakistunni og kveikti. Einhver þvagrásin meig samstundis yfir mig beygingarvillum og japli; ég sneri takka og ekki skipti togum – rómsterkur karlmaður þrumaði yfir mig orðið „þjófapakk“. Mér datt strax í hug reiður einstaklingur yfir matvælaverði eða einhverju í þeim moll, en það var öðru nær. Á örstuttum tíma tókst þessari rödd á Útvarpi Sögu að koma því til skila að útgerðarmenn væru þjófar og ræningjar – hefðu stolið svo miklu af þjóðinni að því yrði vart með orðum lýst og í þokkabót gerði hún sér enga grein fyrir því.
Ég verð nú að meðaltali ekki kjaftstopp. En þarna var á ferðinni einhver sem hikaði ekki við að kalla þá sem róa á Íslandsmið þessum ónefnum og ég viðurkenni fúslega að hafa gapað sem færadreginn golþorskur, nýskollinn á dekk. Þvílíkur málflutningur.
Þessum einstaklingi er hleypt í útsendingu með ásakanir um grófustu lögbrot. Hvernig væri nú, að þessi kjaftaskur sýndi þá lágmarksábyrgð í verki, vitandi um stórþjófnað, að kæra til lögreglunnar að frá honum hafi verið stolið. Mín ágiskun er hins vegar sú að það geri hann ekki. Það hentar betur ábyrgðarlausum froðusnökkurum að troða sér í útvarpsrás og kalla til ábyrgðar þá sem veikastir eru fyrir – t.d. aldraða og öryrkja. Gæti það verið tilfellið hjá honum þessum?

Ég sinnti erindum og velti í leiðinni fyrir mér um hvað ég ætti að fjalla í þessum skoðunarpistli sem ég sit nú við að hnoða. Togararallið? Nei, fjandinn fjarri mér! Þar er engu við að bæta. Fiskifræðin snýst orðið um stærðfræði og ef stærðfræðidæmi er reiknað frá gölnum upphafsforsendum segir sig sjálft hver útkoman er.

Uppúr hádegi heyrði ég glamur frammí kaffistofu og fagnaði í huganum að skrifstofustjórinn væri að hella uppá kaffi og hafa eitthvað til. Ég rölti fram í eldhúskrókinn og slóst í félagsskapinn.
Á borðinu lá páskaeintak Fiskifrétta. Sem við spjölluðum, fletti ég blaðinu og nú blasti við mér opnuviðtal við þann sama og ég hafði lesið árla morguns.
Fyrirsögnin sagði mér umsvifalaust að LÍÚ forystan hefur ekki enn skilið það sem stendur í landslögum – að fiskveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar.
En þetta kom mér ekkert á óvart. Það er stutt síðan LÍÚ hótaði málsókn á þeim forsendum að línuívilnun væri „eignaupptaka“. Lyppuðust undan. Það sem kom ögn meira á óvart var að framkvæmdastjórinn hjakkaðist ofaní hjólför raddarinnar á Útvarpi Sögu. Þjófkenni. Í þetta sinn stjórnmálamenn og í afleiðu smábátaeigendur. Veiðiheimildir smábáta væru „hreinn þjófnaður“ á veiðiheimildum frá stórútgerðinni.

Skilaboðin úr landi

Ég lét hugan reika útá sjó og reyndi að setja mig í spor manns sem stæði við línudrátt á litlum bát. Landsýn til höfuðborgarinnar, vetur í lofti og veltubrim. Honum er boðið uppá útvarpsdagskrá þar sem er öskrað að hann sé þjófur og ræningi og innan greinarinnar er hann vændur um þátttöku í stuldi veiðiheimilda. Og í hvorugu tilfellinu er hann flokkaður sem „svokallaður“ þjófur. Þar er enginn vafi. Til hans er skilað að starf hans grundist á lögbrotum.

Nú þegar ég slæ botninn í þetta pár velti fyrir mér þessum skilaboðum sem ég hef hér rakið. Yfir borgina hefur lagst myrkur og hryssingur í lofti. Táknrænt. Er þetta boðlegt og Íslandi til sóma og öðrum til eftirbreytni? Og væri ekki ágætis byrjun til bættra samskipta innan sjávarútvegsins að maðurinn við línuspilið yrði beðinn afsökunar á þessum ruddaskap?
Hið sorglega er að líklega yrði um „svokallaðar“ afsökunarbeiðnir að ræða.“