Hlaupist undan merkjum

Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 12. maí sl.

Grásleppuvertíðin stendur nú sem hæst. Það sem einkennt hefur vertíðina til þessa er góð veiði, lágt verð og fáir sem stunda veiðarnar. Það hefur því truflað allan samanburð á veiði að algengt er að helmingi færri bátar eru á hverri veiðislóð en verið hafa undanfarin ár.

,,Næ endum saman með magninu”

Áður en vertíð hófst hér 10. mars sl. lá ekki fyrir sala á væntanlegri veiði. Öllum veiðimönnum var ljóst að takmarka þyrfti veiðarnar til koma á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Flestir framleiðendur sögðust ætla að kaupa hrogn á vertíðinni en voru ófáanlegir til að nefna hvað þeir ætluðu að greiða fyrir. Við slíkar aðstæður hefði að sjálfsögðu ekki átt að hefja veiðar og hefur Landssamband smábátaeigenda ávallt hvatt veiðimenn til þess. Einstaka veiðimenn kusu að fylgja ekki slíkum tilmælum og þá um leið að kasta frá sér öllum vopnum til samninga um eðlilegt verð. Með því sköðuðu þeir bæði sjálfa sig og þá sem höfðu hug á að þrýsta á um ásættanlegt verð með því að hefja ekki veiðar fyrr en það lægi fyrir. Til að toppa andlitsgusuna framan í þessa ábyrgu aðila, er afkomusvar hinna eftirfarandi: „Ég næ endum saman með magninu, veiði helmingi meira þar sem verðið er helmingi lægra!!!”
Í raun er alveg með ólíkindum að sú staða sem hér er lýst skuli koma upp nú á tímum. Í samdrætti sem raunin er á þurfa allir að haga seglum eftir vindi. Það að nokkrir aðilar hlupust undan merkjum og byrjuðu að „gefa hrognin“ átti stóran þátt í að leita þarf aftur til ársins 1990 (16 ár) til að finna lægra skilaverð í krónum talið fyrir tunnu af söltuðum grásleppuhrognum.

Veiðitími styttur

Því sem hér hefur verið lýst er dæmi um ósamstöðu sem erfitt er að ráða við. Öðru gegnir um að takmarka veiðarnar. Síðustu ár hefur verið gengið útfrá því að nokkur hluti veiðimanna léti það sig engu skipta hvort markaður væri fyrir hrogn. Þeir færu á veiðar án þess að hafa neina tryggingu frá kaupanda og veiddu óheft í markaðsaðstæðum eins og nú eru. Gripið hefur verið til þess ráðs að stytta veiðitíma hjá öllum hvort sem þeir hafa haft sölu eða ekki. Þannig hefur tekist að hafa heimil á framboðinu og draga úr líkum á offramboði.

Upplýsingafundir veiðiþjóða og kavíarframleiðenda

Frá því 1989, eða í alls 17 ár, hefur LS staðið fyrir upplýsingafundum fulltrúa veiðiþjóða og framleiðenda grásleppukavíars. Á fundunum hefur verið farið yfir stöðu mála á markaðinum og reynt að finna út hversu mikil veiðin megi verða svo stöðugleiki haldist. Þátttakendur á fundunum hafa allir gert sér grein fyrir því að ef veiðin færi úr böndum mundi það leiða til verðlækkunar til veiðimanna og framleiðenda. Því væru það sameiginlegir hagsmunir að takmarka veiðar við það magn sem kallað væri eftir. Flest árin hefur gengið nokkuð vel að stemma stigu við offramboði og verð hefur því oftast verið viðunandi.

Umskipti

Fyrir 2 árum (2004) urðu umskipti. Þá fór veiðin úr böndum, ekki fékkst við neitt ráðið. Þegar tekið var tillit til birgða frá árinu áður má ætla að til hafi verið tvöfalt það magn af hrognum sem árlega er framleitt úr. Í kjölfarið var ákveðið að herða á stýringu veiðanna.

Fulltrúar veiðiþjóðanna undirritaðu samkomulag um að dregið yrði verulega úr heildarframboði, það er úr 43 þús. tunnum (2004) í 28 þús. tunnur. Einnig var samstaða um að Ísland, Kanada og Grænland mundu ekki veiða í meira en 8000 tunnur hver þjóð og Norðmenn ætluðu að takmarka sig við 4000 tunnur. Í kjölfarið var veiðitími styttur hérlendis niður í 60 daga, Norðmenn minnkuðu kvótann, Nýfundnalendingar styttu veiðitímann niður í 15 daga og Grænlendingar hófu reglusetningu sem útilokaði áhugamenn frá veiðunum.

Breytinga þörf

Því miður náðist ekki að koma veiðunum niður í það magn sem áformað hafði verið, en árangurinn varð samt verulegur þar sem framboð minnkaði um 0-5-10 tunnur, fór niður í 0-5-32 tunnur (2005). Þó að ekki hafi verið farið meira en 5000 tunnur fram úr því sem þjóðirnar miðuðu við varð það nægjanlegt efni fyrir þann jarðveg sem sáð var í á þessari vertíð þar sem uppskeran er lítið annað en lágt verð og döpur afkoma veiðimanna.

Markmiðið hlýtur að vera að skapa umhverfi sem byggir á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Verðlagning þarf svo að vera sanngjörn þannig að allir þættir skili viðkomandi viðunandi afkomu.
Að lokinni vertíðinni nú álít ég að birgðastaða verði komin í eðlilegt horf. Skapað hefur verið kerfi hjá öllum veiðiþjóðum sem stýrt getur veiðimagni. Fast verð er ákveðið hjá öllum veiðiþjóðunum að okkur undanskildum, hér er verð frjálst. Það hefur sýnt sig að slíkt skilar veiðimönnum ekki viðunandi afkomu og því er breytinga þörf fyrir vertíðina 2007.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.