Þriðjungur þorskaflans veiddur á línu

Á síðustu tveimur árum, 2004 og 2005, hafa línuveiðar á þorski aukist gríðarlega.
Hlutur línunnar datt niður með afnámi línutvöföldunar 1. september 1996, fór úr 22% niður í 15% 1997 og úr 19,4% í 9,2% þegar borin eru saman fiskveiðiárin ´95/´96 og ´96/´97.
Árið 1999 var hlutur línunnar í þorskaflanum kominn í 20% og hélst þar næstu 5 árin eða til 2003. 2004 jókst hlutur hennar svo um 20% og á síðasta ári var svo komið að þriðjungur alls þorskaflans, eða um 70 þúsund tonn voru veidd á línu.

Þetta kemur m.a. fram í svari sjávarútvegsráðherra Einars Kristins Guðfinnssonar við fyrirspurn Guðjóns Hjörleifssonar, sem dreift var á Alþingi 4. maí sl.