Seglar, hákarlar og fljúgandi fuglahræður

Í mars 2004 hratt Alþjóða náttúruverndarsjóðurinn (World Wide Fund – WWF) af stað verðlaunasamkeppni, með að markmiði að kalla eftir útbúnaði á veiðarfæri sem myndi draga úr meðafla. Mest áberandi í þeirri umræðu eru ýmsar tegundir af skjaldbökum, sjófuglum, smáhvölum og hákörlum. WWF fullyrðir að árlega farist í veiðarfærum fiskimanna nokkur hundruð þúsund dýr með þessum hætti og ógni það afkomu margra þessara tegunda.

1. verðlaun eru 25 þúsund dollarar (1,8 milljónir) svo eftir nokkru er að slægjast.

Á síðasta ári voru verðlaunin veitt fyrir þá hugmynd að blýa niður línu til túnfiskveiða, svo línan fari niður fyrir 100 metra dýpi og þar með eigi að draga stórlega úr meðafla á sjávarskjaldbökum. Í prófunum á hugmyndinni reyndist draga úr meðafla um 42%, sem verður að teljast all nokkur árangur.

Varla kippa íslenskir sjómenn sér upp við þessa hugmynd, því ekki getur hún talist af frumlegustu gerð, þó svo að hún skili árangri. Öðru gegnir um hugmyndina sem vann keppnina í ár, en 80 hugmyndir frá 26 löndum kepptu um verðlaunin.

Micheal Herrmann, sem vinnur að rannsóknum í samvinnu við bandaríska fyrirtækið Shark Defense vann í ár fyrir þá hugmynd að festa öfluga segla rétt ofan við öngla á túnfiskveiðilínu, en hákarlar eiga gjarnan til að slæðast með í aflanum, bæði þeim og sjómönnum til mikillar armæðu.
Við rannsóknir hefur komið í ljós að sumar tegundir hákarla eru næmari en aðrar fyrir seguláhrifum og hrekjast því að stórum hluta frá veiðarfærum, sé slíkur útbúnaður notaður.

Í öðru sæti var Chris Carey frá Nýjasjálandi, en hann hefur hannað fljúgandi fuglahræðu til að hrekja sjófugla frá fiskilínum. Hlaut hann að launum 5 þúsund dollara, eða u.þ.b. 350 þúsund krónur.

Um þessar hugmyndir er sjálfsagt allt gott að segja, en óneitanlega spretta upp spurningar eins og hvort mikið magn af seglum um borð geti haft aukaverkanir á siglingatæki og fleira og óneitanlega er það skondin tilhugsun að sjá fyrir sér fjölda línubáta á þröngu svæði, alla með fljúgandi fuglahræðu í eftirdragi við að leggja.