Whole Foods Market í heimsókn á Íslandi

Í árafjöld hefur LS haldið því fram að sú stund rynni upp að erlendir kaupendur íslenskra fiskafurða myndu beina athygli sinni að smábátaútgerðinni. Oftar en ekki hefur þessi málflutningur og sannfæring LS vakið hlátur og glósur úr ýmsum áttum, jafnvel innan greinarinnar sjálfrar. Þessum húmoristum og sérfræðingum er nú óhætt að taka til matar síns við að éta ofaní sig spekina.

Carrefour

Skemmst er að minnast þess að Carrefour, næst stærsti smásöluaðili á matvöru í heiminum, heimsótti klakann þegar sjávarútvegssýningin stóð yfir s.l. haust. Þá hikuðu fulltrúar fyrirtækisins ekkert við að lýsa kröfum sínum varðandi innkaup á þorski og ýsu – línufisk, helst lönduðum daglega.

Carrefour tók athyglisverða afstöðu varðandi umhverfismerkingar sjávarafurða, sem um þessar mundir er mikið í umræðunni innan sjávarútvegsins. Fyrirtækið tók þá ákvörðun að skrifa upp eigin siðareglur varðandi innkaup á sjávarafurðum og teiknaði samhliða því eigið umhverfis/gæða/vottunar merki.

Með þessari ákvörðun sinni hafnaði Carrefour vottunarkerfi MSC (Marine Stewardship Council) sem sannarlega hefur verið í sókn á þessu sviði.

Waitrose

Fiskkaupendum í Evrópu fer stöðugt fjölgandi sem gera þá kröfu að fiskafurðir komi frá sjálfbærum og ábyrgum veiðum. Síðasta dæmið er matvörukeðjan Waitrose í Bretlandi – línufisk, takk fyrir.

Hin fáránlega sterka staða íslensku krónunnar hefur gert að verkum að Bandaríkin hafa verið utan þessarar myndar. Þetta er að breytast.

Whole Foods Market

Full ástæða er til að vekja athygli á viðtali sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í gær, 8. júní (bls. B 11). Þar er til svara Julia Obici, aðstoðarframkvæmdastjóri Mið- Atlantshafsdeildar Whole Foods Market verslunarkeðjunnar í Bandaríkjunum. Hún, ásamt þremur yfirmönnum hjá Whole Foods heimsóttu Ísland í lok maímánaðar, fyrst og fremst til að kynna sér smábátaútgerðina og afurðir unnar úr þeim afla sem hún ber að landi.

Þeir sem litið hafa augum verslanir Whole Foods ljúka upp einum munni um að glæsilegri matvöruverslanir fyrirfinnist ekki. Fyrirtækið er byggt á hugmyndafræði um lífrækt ræktaðar matvörur og við innkaup er einnig tekið tillit til félagslegra áhrifa framleiðslunnar.

Í viðtalinu í Morgunblaðinu segir Julia Obici m.a.:

„….við viljum flytja inn fisk beint frá Íslandi og horfum sérstaklega til smábátaútgerðarinnar“.