Víða glímt við sömu mál og hérlendis

Það er víðar en á Íslandi sem glímt er við að ná árangri við að byggja upp nytjastofna í hafinu. Margir eru sannarlega orðnir langeygir eftir slíkum árangri varðandi þorskstofninn, þótt mörgum línumönnum finnist reyndar skjóta skökku við hversu vel veiðist á línuna miðað við hversu fáir þorskar eiga að vera eftir í sjónum, samkvæmt bókhaldi HAFRÓ.

Forvitnilegt dæmi um árangur á þessu sviði er að finna í Kanada varðandi humarveiðar á tveimur aðskildum veiðisvæðum. Annars vegar er um að ræða humarveiðarnar við Quebec fylkið og hins vegar New Brunswick – en veiðisvæðin liggja ekki ýkja langt frá hvert öðru. Í Quebec eru um 600 humarveiðileyfi en um 1500 í New Brunswick, þar sem veiðsvæðið er stærra í hlutfalli.

Veiðunum á báðum þessum svæðum hefur verið og er stjórnað með tímabundinni vertíð, fjölda veiðileyfa og fjölda gildra á bát. Að auki hafa t.d. verið í gildi reglur um að sleppa humar undir ákveðinni stærð og kvennhumar af stærstu gerð, sem eru með hrogn (hvar eru nú öll jafnréttissamtökin?). Ekki eru reglur um bátsstærð, en veiðarnar eru svo til eingöngu stundaðar á bátum í kringum 11 – 13 metrar. Kvótar hafa aldrei verið notaðir við stjórnun þessara veiða.

Fyrir nokkrum árum fóru veiðimenn á báðum svæðunum að taka í notkun nýja tegund af humargildrum sem tóku þeim gömlu hefðbundu verulega fram í afköstum og þægilegheitum við vinnu. Á þeim voru að auki minni göt, bæði fyrir „inngönguna“ og þá humra sem fatta hvernig á að koma sér út á nýjan leik.

Eftir mikið þjark og þras innan samtaka humarveiðimanna í Quebec, var samþykkt að hætta væri á því að það jafnvægi sem haldist hefði myndi raskast með hinum nýju gildrum. U.þ.b. helmingur veiðimannanna varð að losa sig við nýju gildrurnar og setja þær gömlu og hefðbundnu um borð á nýjan leik.

Í New Brunswick var þetta hins vegar ekki samþykkt og reglur um sleppingar smáhumars að auki ekki gerðar eins strangar og í Quebec.

Í dag er staðan sú að humarveiðarnar í Quebec ganga með afbrigðum vel og fiskimenn flestir á því í dag að þeirra ákvarðanir skipti þar sköpum.
Í New Brunswick er aðra sögu að segja, þar hefur dregið úr veiðunum eftir að hinar nýju gildrur komu til sögunnar.

Breyttar aðstæður í náttúrunni skýra ekki málið, að sögn kunnugra.

Ekki er ólíklegt að þetta dæmi frá Kanada lægi endanlega öldurnar á milli þeirra sem annars vegar vilja drepa smáfisk og hinna sem eru því andsnúnir.