Dragnótin burt af Málmeyjarsundinu

Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að banna dragnótaveiðar á Málmeyjarsundi í Skagafirði. Bannið tók gildi 7. ágúst sl. Svæðið er innan línu sem dregin er úr Kögri á Þórðarhöfða í norðurenda Málmeyjar og þaðan réttvísandi í austur til lands.

Að sögn Ragnars Sighvats trillukarls á Sauðárkróki fagna félagsmenn í Skalla öllum blettum sem bannað er að skarka með dragnót á. Þeir hefðu þó kosið að sjávarútvegsráðherra hefði farið að öllu leiti eftir samþykkt Skalla og aðalfundar Landssambands smábátaeigenda að dragnótinni yrði komið burt úr Skagafirði. Það hefði hann gert með því að draga línuna úr Ketubjörgum í Almenningsnöf.
Ragnar sagði að áfram yrði barist gegn dragnótaveiðum í Skagafirði, krafa trillukarla ætti góðan hljómgrunn heimamanna.

Kort af bannsvæðinu:
http://fiskistofa.is/skjol/Veidisvaedi/bann_06-08-07.pdf