Þorvaldur Garðarsson endurkjörinn formaður Árborgar

Í gær var haldinn aðalfundur Árborgar, félags smábátaeigenda á Suðurlandi. Fundurinn var ágætlega sóttur og fjölmörg mál rædd. Meðal þeirra var útfærsla línuívilnunar, kjarasamningar, hrygningarstoppið, frumvarp um áhafnir íslenskra fiskiskipa, ofl.

Stjórn Árborgar var endurkjörin, en hana skipa:
Thorvaldur Gardars 2-1854-100.jpg
Þorvaldur Garðarsson formaður Þorlákshöfn
HaukurJons_2.jpgHaukur Jónsson varaformaður Eyrarbakka
OlafurSigurmunds_2.jpgÓlafur Ingi Sigurmundsson Selfossi
RagnarJons_2.jpgRagnar Jónsson ritari Selfossi
StefanHauks_2.jpgStefán Hauksson gjaldkeri Þorlákshöfn

Aðalfundur Árborgar samþykkti eftirfarandi tillögur til 22. aðalfundar LS sem haldinn verður 26. og 27. október.

1. Árborg hvetur aðalfund LS til að beita sér af alefli fyrir því að lög um línuívilnun verði lagfærð. Aðalfundur Árborgar krefst þess að allir dagróðrabátar sem róa með línu njóti línuívilnunar án tillits til þess hvernig línan er beitt, þó að hámarki 400 þorskígildi hvern róðrardag, enda er það vægast sagt óeðlilegt að stjórnvöld séu að stjórna því með svo beinum hætti hvernig menn beita sína línu. Lagt er til að LS fari fram á viðræður við sjávarútvegsráðherra um málið og skipi 3 manna viðræðunefnd til þeirra viðræðna.

2. Árborg leggur til að LS verði veitt umboð til að ganga frá samningum um laun og kjör á smábátum fyrir hönd félagsmanna sinna.

3. Árborg beinir þeirri tillögu til aðalfundar LS að reynt verði að sjá til þess að páskar falli inn í hrygningarstoppið.

4. Aðalfundur Árborgar beinir þeirri tillögu til aðalfundar LS að þess verði vandlega gætt að miðað verði við 15 metra lengd skipa að lágmarki,(en ekki 12 metra eins og er í frumvarpsdrögum) varðandi réttindi skipstjórnar og vélgæslumanna í væntanlegu mönnunarfrumvarpi. Verði miðað við 12 metra lengd skipa þýðir það umtalsverða skerðingu réttinda bæði varðandi pungaprófið og vélgæsluréttindin.

5. Aðalfundur Árborgar beinir því til aðalfundar LS að mótmæla harðlega öllum framkomnum hugmyndum um breytingar á slægingarstuðlum svo og reglugerð um vigtun sjávarafla.

6. Árborg beinir því til aðalfundar LS að handfæraveiðar verði frjálsar hluta úr ári.