Nýlokið er í Danmörku markaðsátaki um aukna fiskneyslu. Yfirskrift átaksins var „tvisvar í viku“. Kannanir í kjölfar markaðsátaksins sýna að þekking neytenda á fiski eykst stöðugt, jafnframt því sem fiskneysla eykst.
Könnun á áhrifum markaðsátaksins „tvisvar í viku” sýna að yfir ein milljón Dana 18 ára og eldri sáu merki átaksins, rauða fiskahjartað. Þar var hvatt til þess að borða fisk að minnsta kosti tvisvar í viku. Slagorðið er nú orðið hluti af þeim hollráðum sem manneldisráð Danmerkur sendir frá sér.
Það vekur einnig athygli að neysluvenjur hafa breyst með átakinu. Í fiskbúðunum jókst veltan um 17% á meðan á átakinu stóð, auk þess varð marktæk söluaukning hjá fleiri verslanakeðjum. Nýjustu tölur frá dönsku Hagstofunni benda til aukinnar veltu sem nemur allt að 30% á fyrri helmingi ársins 2006 hjá fiskbúðunum.
Það var Upplýsingadeild fiskframleiðenda sem gekkst fyrir markaðsátakinu. Haft er eftir Lone Marie Eriksen hjá Upplýsingadeildinni að eðlilegt sé að átakið hafi til að byrja með skilað sér best í sérverslunum þar sem þekkingin er mest. Viðskiptahópur sérverslananna er meðvitaður um hollustu og gæði og er sá hópur sem borðar mestan fisk. En nú lítur einnig út fyrir að átakið sé að skila árangri út í verslanakeðjurnar, salan væri til vitnis um það.
Myndirnar eru frá Hirsthals