Sjávarútvegsráðherra telur krónuna nú of sterka

Í dag flutti sjávarútvegsráðherra Einar K. Guðfinnsson ræðu á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva. Þar gerði hann m.a. að umtalsefni stöðu krónunnar, umhverfismerkingar, AVS sjóðinn, nám í Fjöltækniskóla Íslands fyrir millistjórnendur í fiskvinnslu, Matís ohf. ofl.

Ráðherrann sagði gengislækkun krónunnar hafa verið mikinn aufúsugest fyrir útflutningsgreinarnar. Hann lýsti sig ósammála þeim sem haldið hafa því fram að betra hefði verið útfrá efnahagslegu sjónarmiði að lækkunin hefði komið síðar á árinu. Það hefði í raun þýtt að „við hefðum séð á eftir þýðingarmiklum burðarásum í byggðunum og mikilvægum fyrirtækjum í íslenskum sjávarútvegi.“

Í máli ráðherrans kom fram að gengisvísitala innan við 120 endurspegli of sterka krónu. Þess má geta að gv. í dag er 8-8-1.

Ráðherrann taldi brýnt að sjávarútvegurinn móti sína eigin stefnu út frá sínum forsendum er varðar umhverfismerkingar sjávarafurða. „Við eigum ekki að lúta yfirþjóðlegu eða fjölþjóðlegu valdi heldur fremur tryggja að þessi markaðssetning sé gerð á okkar forsendum og með okkar eigin hagsmuni að leiðarljósi.“

Sjá ræðu ráðherra í heild:

http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/radherra/Raedur_EKG/nr/1292