Ekkert lát er á formannaskiptum í svæðisfélögum LS. Aðalfundur Smábátafélags Reykjavíkur var haldinn 5. október sl. Stjórn félagsins gaf ekki kost á sér til endurkjörs, þar með talinn formaður félagsins Þorvaldur Gunnlaugsson.
Nýr formaður var kosinn Garðar Berg. Myndin hér til hliðar sýnir þá félaga Þorvald og Garðar.
Í lok fundar var Þorvaldi þakkað fyrir afar gott starf í þágu félagsins. Í máli þeirra sem til máls tóku á þessum tímamótum kom m.a. fram að Þorvaldur hefði rifið félagið upp og verið vakinn og sofinn yfir hagsmunum félagsmanna. Einkum voru þar nefnd framfarir í hafnarmálum og samskipti við hafnaryfirvöld, en fram hafði komið í máli Þorvaldar að fullkomin upptökubraut sæi dagsins ljós fljótlega.
Hafnarmálin voru mikið rædd á fundinum og þær breytingar sem stæðu yfir. Mikið ónæði er af þeim og lýstu sumir því svo að þeir yrðu að sæta lægi að landa á milli sprenginga!
Á aðalfundi Smábátafélags Reykjavíkur var eftirfarandi samþykkt:
1. Fundurinn leggur til að umboð til gerðar kjarasamninga vegna smábáta verði vísað til stjórnar LS.
2. Fundurinn leggur til að slægingarstuðullinn verði óbreyttur.
3. Fundurinn skorar á yfirvöld að heimila hvalveiðar strax.
4. Fundurinn skorar á yfirvöld að halda áfram rekstri NMT símakerfisins.
5. Fundurinn lýsir yfir sárum söknuði eftir útvarpsþættinum „Auðlindinni” og skorar á Ríkisútvarpið að endurvekja þann góða þátt hið snarasta.
6. Fundurinn samþykkir að fela stjórn LS að fá fellda úr gildi 7. og 8. málsgrein, 14.gr. laga nr.116 frá ágúst 2006 – Lög um stjórn fiskveiða.
Athugasemd : 7. og 8. málsgrein fjallar um veiðiskyldu.