Hrollaugur – félag smábátaeigenda á Hornafirði – hélt aðalfund sinn 27. september sl.
Fundurinn var ágætur og mikið líf í umræðum. Talsverður skoðanaágreiningur var í nokkrum málum sem marka má af því að niðurstaða í þeim fékkst með atkvæðagreiðslu.
Eftirfarandi var samþykkt á aðalfundi Hrollaugs:
Að togveiðar verði bannaðar á hrygningarsvæðum síldar úti fyrir Suð-Austurlandi, nánar tiltekið á Papagrunni, Stokksnesgrunni og Mýrargrunni, á meðan rannsóknir fara fram á skaðsemi togveiðarfæra á hrygningu síldarinnar.
Að reglugerðarhólf á Mýrargrunni, svokallað Keiluhólf, verði opnað fyrir línuveiðum.
Að útfærsla línuívilnunar verði leiðrétt tafarlaust, þannig að bátar sem róa með beitningatrektar njóti sömu ívilnunar og bátar sem róa með landbeitta línu, ella verði hún slegin af.
Að byggðakvóti verði sleginn af í ljósi þeirrar sundrungar og ósættis sem úthlutun hans hefur valdið í gegnum árin.
Að skipum yfir 100 brl sem eru með línubeitningavélar, verði óheimilt að veiða innan 6 mílna landhelgi.
Snorri Aðalsteinsson var endurkjörinn formaður Hrollaugs og með honum í stjórn eru Elvar Unnsteinsson og Gísli Geir Sigurjónsson.
Fulltrúi Hrollaugs í stjórn LS er Unnsteinn Guðmundsson.