Setningarræða Arthurs Bogasonar formanns Landssambands smábátaeigenda.

Ágætu aðalfundarfulltrúar, hæstvirtur sjávarútvegsráðherra og góðir gestir!
Ég býð ykkur velkomin á 22. aðalfund Landssambands smábátaeigenda.

Fyrir rétt rúmu ári fögnuðum við 20 ára starfstíð Landssambands smábátaeigenda. Við héldum veglega upp á tímamótin og fjölmargir samglöddust okkur. Að gera sér dagamun af slíku tilefni er prýðilegt, en þið, félagsmenn góðir, bættuð í kjölfarið svo sannarlega um betur: Þið fiskuðuð sem aldrei fyrr og sönnuðuð því enn eina ferðina með glæsibrag hvers smábátaútgerðin er megnug og hve mikilvæg hún er í atvinnulífi þjóðarinnar.

Þessu fögnum við sem og þeirri staðreynd að undanfarna mánuði hefur afkoman í sjávarútveginum gerbreyst, eftir tímabil sem var þrúgað af undarlegum styrk örgjaldmiðilsins sem íslenska krónan er. Vonandi koma þeir tímar ekki aftur.

Ég hygg mig ekki einan á báti að undrast þá staðreynd, að á sama tíma og þessar jákvæðu breytingar hafa átt sér stað, minnkar stöðugt umfjöllun íslenskra fjölmiðla um sjávarútveginn og mannlífið honum tengt. Eitt slagorða ljósvakamiðils sem fyrir skömmu reis og féll á undraskömmum tíma var að hann væri „alltaf, alls staðar”. Gagnvart sjávarútveginum hefði verið nær að segja „alltaf, annars staðar”. Þetta er furðuleg þverstæða hjá fiskveiðiþjóð. Hvernig getum við haft efni á því að álasa öðrum þjóðum fyrir vanþekkingu á fiskveiðum og nýtingu auðlinda sjávar, þegar við sjálf stöndum svona að málum? Hjá þjóð sem byggir jafn mikið á nýtingu auðlinda hins lifandi hafs þætti mér eðlilegt að fréttaflutningur væri tíður af gangi mála.
En það er öðru nær – nema þegar mál á borð við það sem um þessar mundir er mál málanna á Íslandi, sem er að fyrir fáeinum dögum gaf sjávarútvegsráðherra út leyfi til hvalveiða í atvinnuskyni. Á þessu hafa fjölmiðlar áhuga, enda í huga margra hálfgerð stríðsyfirlýsing. Utan úr heimi streyma fréttir sem eru svo fullar af rangindum að við dæsum og sláum okkur á lær yfir fávísi erlendra þjóðarleiðtoga sem og almennings. En til hvers ætlumst við? Að erlendir fjölmiðlar sjái betur um upplýsingastreymi á þessu sviði en við gerum sjálf?
Sjálfur styð ég nýtingu hvalastofna – sérstaklega þeirra sem sannarlega eru fiskætur og því í beinni samkeppni við fiskimenn. Ég hef hins vegar nokkrar áhyggjur af því hvernig margir hvalveiðisinnar hafa rökstutt mál sitt. Því er helst teflt fram að hvalir gangi á fiskistofna og með veiðum á þeim sé hægt að auka veiðiheimildir fiskveiðiflotans. Er þá ekki úr takti að stefna til hafs og veiða skíðishvali, sem draga ekki fram lífið með fiskáti? Samkvæmt því sem vísindin segja, éta skíðishvalir aðeins brot af því átumagni sem framleiðist árlega í íslensku 200 mílna lögsögunni. Ég óttast – af gildri ástæðu – að andstæðingar veiðanna muni taka þennan pól í hæðina og gera okkur þannig ótrúverðug í málinu.

Á hinn bóginn er jafn furðulegt að heyra rök andstæðinga þess að við nýtum þessa auðlind sjávar. Þar á bæ er því t.d. haldið fram að fiskát tannhvala í lögsögunni skipti ekki nokkru einasta máli.
Svo vill til, að stærð selastofna við Ísland hefur af einhverjum umhverfislegum orsökum sem skýring er ekki tiltæk á, þróast með allt öðrum hætti en í fjölmörgum nálægum löndum. Öll vitum við hvernig þessir hlutir hafa þróast við austurströnd Kanada. Þar eru á sjöunda milljón sela í samkeppni við örfáar þúsundir fiskimanna. Á Bretlandseyjum fjölgar selum svo ört að til hreinna vandræða horfir og í Norðursjó eru þeir plága. Dettur einhverjum heilvita manni til hugar að fiskát þessara dýra skipti engu máli? Hefðu selastofnar við Ísland vaxið með sama hraða og annars staðar – hefði það engin áhrif haft?
Í sjálfu sér ætlast ég ekkert til þess að andstæðingar hvalveiða tefli fram ísköldum rökum í formi reikningsdæma um fisk- eða átumagn. Flestir þeirra byggja skoðun sína á tilfinningum og til þess höfum við öll fullan rétt, þar með talinn Kristján Loftsson.
Mitt í öllum þessum hvalablæstri kom svo frétt sem sýnir kannski best af öllu hverskonar hágæða umræða er í gangi:
Einhverjir mikilsvirtir aðilar innan sjávarútvegsins erlendis neituðu að mæta til alþjóðlegrar ráðstefnu um sjávarútvegsmál sem til stóð að halda hérlendis. Ástæðan: hvalveiðar Íslendinga. Og hvert skunda þeir í staðin? Jú, til Noregs af öllum löndum. Ég segi nú eins og einhver snillingurinn: „Þetta er á við þjóf úr heiðskýru lofti“.
Landssamband smábátaeigenda hefur til margra ára hvatt til þess að hvalveiðar verði hafnar á ný og að sjálfsögðu styður félagið þessa ákvörðun. Með henni sýndi sjávarútvegsráðherra djörfung sem stjórnmálamenn eru linnulaust vændir um að vera gerilsneyddir af.

Eins og ég sagði, þá hefur undanfarna mánuði birt yfir í rekstri sjávarútvegsins. En því miður rekur sú birta uppruna sinn harla lítið til rannsóknarleiðangra Hafrannsóknastofnunar. Þar drýpur myrkur af hverju strái hvað þorskstofninn varðar og svo langt er nú gengið að segja þróun mála á íslenskum fiskimiðum „óhugnalega líka því sem er að gerast í Norðursjónum”. Þar hefur Alþjóðahafrannsóknarráðið sagt að þorskurinn deyji út, verði veiðar ekki stöðvaðar með öllu.
Ég hef ekki farið í launkofa með skoðanir mínar á stofnstærðarmælingum Hafrannsóknastofnunar og harðna sífellt í þeirri afstöðu minni. Á sama tíma og Hafrannsóknastofnun setur fram jafn kolsvarta framtíðarsýn á afkomumöguleikum þorskstofna við Ísland birtist viðtal í tímaritinu Ægi við einn öflugasta trillukarl Íslandssögunnar, sem nú nýverið ákvað að segja skilið við sjómennskuna, eftir rúm 60 ár. Í viðtalinu segir hann orðrétt um fiskeríið við Grímsey: „Ég hef aldrei orðið vitni að annarri eins fiskgengd og í fyrravetur”. Skyldi vera til sá fiskimaður við Norðursjóinn sem segir það sama og getur framvísað aflaskýrslum því til staðfestingar? Mér finnst þetta dæmi vera lýsandi fyrir þá gjá sem er á milli þess sem veiðimenn upplifa á miðunum og þess sem vísindamennirnir mæla.

Í þessu sambandi er vert að minnast á mál sem kraumar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og fjölmörg umhverfissamtök hafa tekið upp á sína arma. Það er bann við notkun botnvörpu á úthöfunum. Fyrst þegar þessi tillaga kom fram held ég að margir hérlendis hafi talið þetta bólu sem myndi springa og ekki til að hafa áhyggjur af til framtíðar. Það er að renna upp fyrir hinum sömu að svo er ekki og svo vill til að þessi tillaga snertir það sem fjölmörg svæðisfélög ályktuðu um á nýafstöðnum aðalfundum sínum. Þar kom fram eindreginn vilji til að ýta frá ströndinni notkun dragnótarinnar og jafnvel lagt til að togveiðar verði eingöngu leyfðar utan 12 sjómílna.
Staðreyndin er sú að það eru ekki bara einhverjir „vitleysingar” úti í heimi sem hafa horn í síðu botndreginna veiðarfæra – sú afstaða er algeng meðal strandveiðimanna – t.d. hérlendis. Mér finnst skjóta skökku við, að á sama tíma og sífellt fleiri kaupendur fisks gera þá kröfu að hann sé tekinn með kyrrstæðum veiðarfærum, sé staðan sú sem hún er hjá okkur Íslendingum.

Gott fiskveiðikerfi á að hafa innbyggðan hvata fyrir fiskimenn að færa veiðarnar sem mest yfir á kyrrstæð veiðarfæri. Línuívilnun er vissulega skref í rétta átt, og ég hef heyrt marga erlenda kaupendur fisks ljúka lofsorði á þessa aðferðafræði. Það segir mér aðeins eitt: Markaðurinn mun í sívaxandi mæli gera kröfu þar um, hvort sem einhverjum stórútgerðarmönnum líkar betur eða verr.

Það er á þessu sviði, sem og mörgum öðrum, sem sóknarfæri smábátaútgerðarinnar liggja og það er sannfæring mín að LS eigi að beina kröftum sínum af alefli til að sem flestir félagsmanna fái notið. Sífellt fleiri aðilar sýna smábátaútgerðinni áhuga og það er trú mín að enn sjáum við bara toppinn á ísjakanum í því sambandi.
Á aðalfundum svæðisfélaganna komu víða fram áhyggjur félagsmanna yfir þeirri þróun að smábátum fækki og að örfáir bátar sem rétt rúmast innan reglna um stærð smábáta muni innan skamms veiða þær aflaheimildir sem smábátaflotinn ræður yfir. Þverstæðan sem við stöndum hins vegar frammi fyrir er sú staðreynd að smábátaflotinn fiskar sem aldrei fyrr. Samfara því að lýsa yfir áhyggjum sínum af þessari þróun kom víða fram sú skoðun að nauðsynlegt væri að til væri handfærakerfi, með tiltölulega þröngan stakk hvað varðar stærð báta og tækjabúnað til veiða.
Eitt af því sem stærri smábátar og samþjöppun aflaheimilda þeirra á meðal mun framkalla er sífellt sterkari krafa um slíkt kerfi. Og í ljósi nýjustu tíðinda, þar sem hægt var að gefa út leyfi til hvalveiða í atvinnuskyni, eitthvað sem langflestir töldu að aldrei yrði, get ég ekki ímyndað mér að það sé óyfirstíganlegt fyrir stjórnvöld að opna slíkt handfæraleyfi.

Ágætu fundarmenn. Við göngum nú til starfa á 22. aðalfundi Landssambands smábátaeigenda. Með störfum ykkar eru þið í senn að skrifa sögu félagsins – sem og sögu smábátaútgerðarinnar.
En hér í salnum er einn okkar sem hefur að öllum ólöstuðum skrifað talsvert umfram meðaltal og vakið landsathygli fyrir einurð og djörfung í framgöngu og málflutningi. Þetta er faðir línuívilnunarinnar og skipuleggjandi stærstu funda hérlendis um málefni og framtíð strandveiðanna og strandveiðisamfélaganna. Ég er hér að tala um strigakjaftinn, kempuna og vin minn Guðmund Halldórsson frá Bolungarvík. Ég ætla ekki að hafa langa tölu um þennan 73 ára gamla ungling, flestir vita hver hann er og fyrir hvað hann stendur. Í dag gerum við Guðmund Halldórsson að heiðursfélaga Landssambands smábátaeigenda.

Ágætu fundarmenn: Ég óska ykkur allra heilla í störfum ykkar á fundinum sem nú fer í hönd. Fjölmörg mál bíða ykkar umfjöllunar og afgreiðslu.

Ég segi 22. aðalfund Landssambands smábátaeigenda settan.

Arthur Bogason
formaður

arthur@smabatar.is

Sex bátar yfir 1000 tonn”


Uppskriftir