Stjórn Snæfells – félags smábátaeigenda á Snæfellsnesi – mótmælir harðlega þeirri ábyrgðarlausu ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins að heimila flottrollsveiðar á grunnslóð við Snæfellsnes. Ákvörðun ráðuneytisins frá í gær er innrás á viðkvæmt lífríki Breiðafjarðar. Með henni sýnir ráðuneytið lítilsvirðingu við þau sjónarmið sem sjómenn við Breiðafjörð hafa haft, þ.e. að Breiðafjörður sé griðland fyrir skaðræðisveiðarfærum sem engu eira líkt og flottroll er.
Þá átelur stjórn Snæfells ráðuneytið fyrir að hunsa tilmæli Hafrannsóknastofnunar að heimila veiðarnar án alls eftirlits um borð. Það er með öllu óafsakanlegt og lýsir í raun betur en orð fá lýst hver hefur valdið í þessum málum.
Að lokum bendir stjórn Snæfells á að markaðir fyrir síldarflök eru yfirfullir sem lýsir sér best í að síldarflök frá síðustu vertíð eru nú flutt til landsins í þúsunda tonna vís þar sem þau fara í bræðslu. Það gull sem hreiðrað hefur um sig við Snæfellsnes er of dýrmætt til að fara þá leið.
Skynsamleg umgengni, nýting og virðing er því að engu höfð þegar ákvörðun var tekin um síldveiðar í flottroll 1,3 sjómílur út af Snæfellsnesi.
Grunnslóðin er griðland sem ber að virða.
Myndin sýnir veiðisvæðið