Samkvæmt reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins um veiðar á íslenskri sumargotssíld eru þær heimilaðar í flottroll út af Snæfellsnesi, 12 klukkustundir á hverjum sólarhring til áramóta.
Sjá nánar svæðið: http://www.smabatar.is/frettir/03-11-2006/872.shtml
Eins og komið hefur fram hefur Snæfell brugðist hart við ákvörðun ráðuneytisins. Í ályktun félagsins var m.a. gagnrýnt að hunsuð séu tilmæli Hafrannsóknastofnunar að heimila veiðarnar án eftirlits um borð.
Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu er nú kominn veiðieftirlitsmaður í eitt skipanna, en sl. nótt voru 4 skip á veiðum á svæðinu, Engey RE, Baldvin Þorsteinsson EA, Vilhelm Þorsteinsson EA og Hákon EA.
Í bréfum Hafrannsóknastofnunar til sjávarútvegsráðuneytisins frá 31. október og 2. nóvember er skýrt tekið fram að veiðarnar verði einungis heimilaðar frá kl 20:00 – 08:00 og að veiðieftirlitsmenn verði ávallt hafðir um borð í skipum sem stunda þessar veiðar. Nefnd reglugerð staðfestir að ráðuneytið hunsar vilja Hafrannsóknastofnunar um eftirlitsmann í hvert skip.
Mikil ólga er á Snæfellsnesi vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðuneytisins og benda menn á að ekki fari saman viðkvæmt lifríki Breiðafjarðar og stórvirkustu veiðafæri flotans. Á fundi í bæjarstjórn Snæfellsbæjar 2. nóvember sl. var m.a. rætt um síldveiði á Breiðafirði. Þar var samþykkt að fela bæjarstjóra að ræða við sjávarútvegsráðherra, eins og segir í fundargerð frá fundinum.
Þá er vitað að bæjarstjórn Grundarfjarðar mun fjalla um málið nk. fimmtudag.