Fjölmenni var mætt til fundar á Hótel Höfða Ólafsvík fyrr í kvöld. Útvegsmannafélag Snæfellsness boðaði til fundarins þar sem rætt var um síldveiðar í flottroll við Snæfellsnes. Miklar umræður urðu á fundinum og snörp skoðanaskipti. Í lok fundar var samþykkt eftirfarandi ályktun:
„Fundur haldinn í Útvegmannafélagi Snæfellsness 8. nóvember telur að veiðar íslenskra síldarveiðiskipa með flottroll samrýmist illa þeim hugmyndum sem uppi eru um hagkvæmar og sjálfbærar veiðar. Fundurinn telur þær brot á þeim reglum sem settar hafa verið um veiðar í íslenskri landhelgi.
Útgerðarmenn við Breiðafjörð hafa verið forgöngumenn þeirra sem vilja ganga vel um okkar verðmætustu auðlindir. Sjálfir hafa útgerðarmenn lagt til að Breiðafirði væri lokað fyrir flestum veiðum í áratug. Því skorar fundurinn á sjávarútvegsráðherra að draga undanþágu um veiðar með flottrolli innan 12 sjómílna til baka, þannig að sómi sé að umgengni um auðlindir hafsins.“