Bæjarstjórn Grundarfjarðar mótmælir ákvörðun sjávarútvegsráðherra

Fyrr í dag var haldinn fundur í bæjarstjórn Grundarfjarðar. Meðal þess sem lá fyrir fundinum var tillaga að ályktun um flottrollsveiðar.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða eftirfarandi ályktun:

„Bæjarstjórn Grundarfjarðar mótmælir ákvörðun sjávarútvegsráðherra að heimila síldveiðar með flotvörpu innan 12 mílna lögsögunnar við Snæfellsnes. Bæjarstjórnin tekur undir áhyggjur Útvegsmannafélags Snæfellinga og Snæfells, félags smábátaeigenda á Snæfellsnesi vegna veiðanna.

Á undanförnum árum hafa útgerðarmenn, sjómenn og samfélögin á Snæfellsnesi lagt sitt af mörkum til verndunar fiskistofnana og tekið á sig ýmsar ráðstafanir sem miða að því að byggja upp fiskistofna til langframa. Þessi heimild til flotvörpuveiða við landsteina, eingöngu á Snæfellsnesi, er ekki í takt við vinnureglur fiskveiðistjórnunar á undanförnum áratugum.

Sjávarútvegsráðherra er hvattur til að endurskoða reglugerð sína hið fyrsta.”

GrundarfjGAUKS05.jpg