„Mikilvægi svæðisfriðana fyrir búsvæði botndýra við Ísland’ var umfjöllunarefnið á málstofu Hafrannsóknastofnunar í dag. Stefán Áki Ragnarsson fjallaði þar um rannsóknir sem gerðar hafa verið innan og rétt utan við friðuð hólf, annars vegar við Horn og hins vegar við Langanes.
Fram kom að fjölbreytni botndýra var töluvert meiri í friðuðu hólfi en á aðliggjandi veiðislóð. Einkum voru skoðaðir svampar þar sem áberandi var hvað þeir voru miklu stærri innan hólfs en fyrir utan það.
Á myndum sem teknar voru úr fjarstýrðum kafbáti við Langanes sáust slóðir eftir hlera sem grafið höfðu sig niður í botninn. Á leið sinni hefðu þeir velt við grjóti og myndað ruðning sitt hvoru megin við farið. Það var því greinilegt að búið var að raska búsvæðum ýmissa tegunda á veiðislóð þar sem lífríki var þar snauðara en í friðuðu hólfunum. Engu var líkara en hlerarnir virkuðu sem plógar sem rutt hafa land.
Stefán Áki sagði verkefnið sýna að þörf væri á að efla rannsóknir á skaðsemi dreginna veiðarfæra.
Það sem fram kom í erindi Stefáns Áka staðfestir það sem haldið hefur verið fram að botnvarpan er skaðleg lífríkinu og hefur þannig áhrif á uppgang nytjastofna.