Eftir 2 ára niðursveiflu í þorskveiðum við Færeyjar er sá guli aftur farinn að veiðast. Að sögn Auðuns Konráðssonar formanns Meginfelag Útróðramanna hefur að undanförnu veiðst mikið af smáum þorski. Allt lítur út fyrir að verulegt magn sé á ferðinni, líklega sterkur árgangur að koma inn í veiðarnar. Annars hefur tíðin leikið okkur grátt í haust og það sem af er vetri, en á móti kemur að fiskverð hefur sjaldan verið hærra. Það er því sæmilegt+ hljóð í okkur nú“ sagði Auðunn.
Auðunn sagði þorskveiðina nú ekki koma sjómönnum á óvart þó fiskifræðingar hefðu spáð viðvarandi þorskleysi næstu árin. Samtímis hefðu þeir gagnrýnt stjórnvöld í Færeyjum fyrir að hunsa tillögur Alþjóðahafrannsóknaráðsins. „Færeyingar hlusta jú á ráðið og hafa alltaf gert en sjaldnast farið eftir þeirra ráðum. Við erum vanir sveiflum í veiðum og förum því ekki á taugum þó það tregist, hvað þá að okkur detti í hug að banna veiðar á tilteknum tegundum. Færeyingar rekja þessar sveiflur til náttúrunnar og meðan við heimilum ekki togveiðar innan 12 mílna þá er ástæðulaust að óttast að veiðar á grunnslóð valdi því að ekki fæst bein úr sjó“, sagði Auðunn Konráðsson.