Skoðanir fiskimanna virtar að vettugi

Föstudaginn 5. janúar s.l. birtist í Fiskifréttum eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason, formann LS:

‘Ágætu lesendur Fiskifrétta!

Ég óska ykkur gleði- og gæfuríks árs, með von um góða tíð, gott fiskirí og hærri fiskverða en nokkru sinni!

Ég veit ekki hvort það er heiður eða refsing að fá það hlutverk að skrifa fyrstu Skoðun Fiskifrétta á nýhöfnu ári. Hallast að hinu síðarnefnda. Hér sit ég, eftir látlaus veisluhöld hátíðardaganna, í hlíðum fjalls af ómótstæðilegum afgöngum forrétta, aðalrétta og hvað þá eftirrétta. Rjóma og smjörsósuþokan liggur hér í hlíðinni. Ég rétt grilli í skjáinn sem ég pára þetta.
Í þokkabót er ísskápurinn enn svo sneisafullur að vart verður hnífsblaði inn brugðið. Það er engu líkara en að við skötuhjúin höfum fengið hugboð um komandi harðæri, frekar en innblástur kærkominna hátíðardaga. O jæja. Þetta er ekkert nýtt og tæpt ár til að vinna úr ástandinu.

Nú er hægur vandi að auka sér leti og afgreiða þessa Skoðun með því að tíunda eitt og annað úr sjávarútveginum á síðasta ári. Af nógu er að taka: Langþráð gengissig krónunnar, heimskulegasta PR (útáviðkynning) íslensks sjávarútvegs “ever” með hvalskurð í beinni undir beru lofti á planinu í Hvalfirði – fyrir framan nokkur hundruð milljónir áhorfenda, smábátur í Bolungarvík setti heimsmet og landaði yfir 1500 tonnum á síðasta fiskveiðiári og ég veit ekki hvað.

Þorskstofninn í Barentshafi vanmetinn

Eitt var þó að mínu viti athygliverðara en flest annað sem til tíðinda bar á árinu 2006. Fréttin vakti þó furðu litlar umræður hérlendis: Rússneskir vísindamenn tilkynntu að þorskstofninn í Barentshafi væri stórlega vanmetinn, hann væri 2,5 milljónir tonna en ekki 1,5 eins og haldið hefur verið fram. Að þessari niðurstöðu komust þeir með gerbreyttri aðferðafræði við stofnstærðarmælingar.
Fiskimenn, hérlendis sem víða annarsstaðar, hafa haldið því fram til langs tíma að þetta sé iðulega raunin.
Viðbrögð vísindamanna eru að meðaltali þau að ekkert sé að marka fiskimenn. Þeir vilji bara veiða meira og séu knúnir áfram af veiðigræðgi og skammtímahagsmunum. Fiskisagan fljúgi og nútíma upplýsinga- og leitartækni geri þá ómarktæka. Hún er ekki há einkunnin sem stéttin fær.

Saga frá Kanada

Í þessu sambandi ætla ég að nefna til fréttir sem kanadískur vinur minn sagði mér á fyrsta degi ársins. Hann er fiskimaður sem býr á suðurströnd Nova Scotia, á lítinn togbát og hefur stundað veiðar á George Bank miðunum sem teygja sig að hluta útúr bandarísku lögsögunni yfir í þá kanadísku. Megnið af hans veiðiheimildum er í ýsu og þorskur einungis leyfður sem 10% meðafli. Þetta er að gera fjölmarga fiskimenn á svæðinu gráhærða. Þeir halda því fram að mikið sé af stórum og vel höldnum þorski á miðunum, svo mikið að til vandræða sé. Þeir segja raunar að væri þeim leyft að veiða þorskinn “beint” myndu þeir geta fyllt bátana á augabragði.

Á þessu er ekkert mark tekið. Regluverk sem passar engan vegin við brauðstritið á miðunum er keyrt ofaní kokið á þeim. Ábendingum þeirra er ekki einu sinni svarað.

Vinda þarf ofan af öfugþróuninni

Tilfinningin sem árið 2006 skilur eftir hjá mér er að aldrei hafi verið eins markvisst gengið framhjá skoðunum og tillögum fiskimanna varðandi ástand og horfur þeirra fiskistofna sem um ræðir í hvert og eitt skipti. Þetta á ekki einungis við um vísindamennina, heldur ekki síður stjórnsýsluna og stjórnmálamennina.

Í því ljósi ætla ég að botna þessa fyrstu Skoðun Fiskifrétta á árinu 2007 með því að bera fram eina fróma ósk, ekki síst í ljósi þess að 12. maí n.k. verður kosið til Alþingis Íslendinga: Að nýhafið ár marki þau tímamót að vísindin og pólitíkin fari nú að vinda ofan af þessari ferlegu öfugþróun í samskiptum manna og geri fiskimennina að jafningjum í umræðunni.’