Aðalfundur Samtaka strandveiðimanna við Norður Atlantshaf (ACFNA) var haldinn í Barcelona sl. fimmtudag 1. febrúar. Fundinn sóttu fulltrúar allra þjóðanna sem eiga aðild að samtökunum. Frá Íslandi komu frá LS Arthur Bogason og Örn Pálsson, frá Meginfjelagi Útróðramanna í Færeyjum kom Auðunn Konráðsson, frá samtökum sjó- og verkamanna á Nýfundnalandi FFAW, komu til fundarins Bill Broderick og David Decker, frá Noregi kom fulltrúi Norges Kystfiskarlag, Håvard Jacobsen og frá KNAPK samtökum veiði- og fiskimanna á Grænlandi sat fundinn John Biilmann.
Meðal þeirra málefna sem rædd voru á aðalfundinum:
Tilfærsla veiðiheimilda og sú staða sem upp kemur í smáum samfélögum þegar engin innan þeirra á lengur rétt til að nýta aðlæg fiskimið öðruvísi en leigja þær af einkaaðilum. Tilhneigingar gætir til þessa á Nýfundnalandi, Noregi og kunnugleg er staða mála hér á landi. Fiskveiðistjórnunarkerfi Færeyinga byggir hins vegar á sóknardögum, en vegna takmarkana á flutningi daga milli útgerðarflokka er tilfærsla daga þar nánast óþekkt.
Umhverfismerki – á aðalfundinum greindu fulltrúar LS frá vinnu félagsins að gerð umhverfismerkis sem ætlað er að marka sérstöðu smábáta innan fiskveiðistjórnunarkerfisins og aflans frá þeim. Fulltrúar hinna þjóðanna lýstu ánægju sinni með frumkvæði LS að þessum málum.
Sellafield – aðalfundurinn mótmælti harðlega ábyrgðarlausri ákvörðun Breta að hefja aftur losun á kjarnorkuúrgangi í hafið við Sellafield. Sjávarútvegsráðherra þeirra ætti fremur að snúa sér gegn þessari vá heldur en að eyða þeim tíma í 7 langreyðar.
Á aðalfundinum lýsti formaður samtakanna sl. 3 ár Auðunn Konráðsson því yfir að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs. Nýr formaður var kosinn Bill Broderick frá Nýfundnalandi.