Málstofa Hafró – Togveiðar á Íslandsmiðum

Næstkomandi föstudag, 16. febrúar, flytur Höskuldur Björnsson verkfræðingur á veiðiráðgjafasviði Hafrannsóknastofnunar erindið
„Togveiðar á Íslandsmiðum: Hugleiðingar um svæðatakmarkanir.“
Málstofan er öllum opin og hefst kl 12:30 í fundarsal á fyrstu hæð Skúlagötu 4.

Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar er sagt eftirfarandi um erindi Höskuldar:
„Áhrif togveiðarfæra á hafsbotn hafa verið mikið í umræðunni á undanförnum árum og talsverðar rannsóknir farið fram á þeim. Hefur komið í ljós að í sumum tilfellum hafa togveiðarfæri valdið verulegum skaða á hafsbotni, í einhverjum tilfellum afturkræfum en öðrum ekki.?
Í fyrirlestrinum verður litið á það hve mikið er hægt að takmarka þau svæði þar sem togveiðar eru leyfðar með lágmarksáhrifum á afla. Skoðuð er sú leið að halda eingöngu þeim svæðum opnum þar sem mikið hefur verið togað, en friða alveg fyrir togveiðum þau svæði þar sem lítið hefur verið togað. Er forsenda nálgunarinnar sú að nóg sé að toga tiltölulega sjaldan yfir svæði til að hafa áhrif á viðkvæm botnsamfélög en hins vegar skipti ekki öllu máli í þessu samhengi hvort togað sé árlega eða mjög oft á ári.?
Fyrirlesturinn fjallar eingöngu um svæðatakmarkanir út frá þessari einu forsendu en ekki er tekið tillit til botngerðar, tegunda og stærðarsamsetningar fisks og fleiri þátta sem taka þarf tillit til við beitingu svæðatakmarkana.“