Áskorun til grásleppukarla: Verðið fyrst – veiða svo

Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 16. febrúar sl.

„Rúmar þrjár vikur eru nú þar til heimilt verður að hefja grásleppuveiðar. Allt bendir til að fyrirkomulag veiðanna verði með sama hætti og í fyrra. Veiðileyfi hvers báts gildir í 50 daga (samfellt) á tímabilinu 10. mars til og með 20. júlí á öllum sjö veiðisvæðunum. Undantekning er þó innanverður Breiðafjörður þar sem tímabilið er frá og með 20. maí til og með 9. ágúst.
Lengst af giltu veiðileyfin í 90 daga á hverju svæði, en vegna óska frá grásleppuveiðimönnum hefur sjávarútvegsráðuneytið nú tekið upp áðurgreint fyrirkomulag veiðanna. Ástæður þess að beðið var um breytingar liggja að mestu í því að markaður fyrir grásleppuhrogn er afar takmarkaður. Með styttingu veiðitíma er þess freistað að stýra framboðinu og telja veiðimenn dagana nógu marga til að hægt sé að veiða það magn sem kallað er eftir.
Meðalveiði sl. tveggja vertíða (2005 og 2006) var 0-0-8 tunnur. Því má gera ráð fyrir að veiðin á komandi vertíð verði kringum þá tölu.

Samstaða veiðiþjóðanna

Samstaða hefur verið meðal þeirra þjóða sem stunda grásleppuveiðar um að heildarframboð hverrar vertíðar fari ekki yfir 30 þúsund tunnur. Þannig hefur verið miðað við að Íslendingar, Nýfundnalendingar og Grænlendingar skipti jafnt með sér 24 þúsund tunnum, Norðmenn leggi til 0-0-4 tunnur og það sem eftir stendur flokkist til óvissrar veiði, t.d. hefur veiði Dana og Svía alltaf verið nokkur hundruð tunnur.

Allar þjóðirnar hafa lagt sitt að mörkum til að takmarka veiðarnar. Áður eru nefndar breytingar á veiðifyrirkomulagi hérlendis, Nýfundnalendingar hafa farið sömu leið og er veiðitíminn hjá þeim aðeins 15 dagar. Grænlendingar hafa takmarkað veiðarnar við þá aðila sem hafa meginhluta tekna sinna af fiskveiðum. Þannig áætla þeir að veiðin muni minnka um allt að fjórðung. Norðmenn stjórna veiðum með hámarkskvóta á hvern bát og hafa þannig getað stýrt hversu mikið veiðist.

Góður árangur af veiðistýringunni

Fyrsta árið sem samkomulagið var í gildi – 2005 – skilaði vertíðin 3-4-32 tunnum. Ísland og Noregur voru innan þeirra marka sem gert var ráð fyrir, en Grænlendingar og Nýfundnalendingar veiddu fjórðungi umfram. Þess ber þó að geta að á Nýfundnalandi hafði veiðin minnkað um 0-3-5 tunnur milli ára eða um 35%.

Á vertíðinni 2006 tókst þjóðunum enn betur upp, veiðin minnkaði um 0-0-2 tunnur milli ára. Nýfundnaland komið niður í 0-6-8 tunnur, Norðmenn í 0-7-2 tunnur og Íslendingar í 5-2-8 tunnur. Grænlendingum tókst hins vegar ekki eins vel upp og veiðin nánast sú sama og árið 2005 eða 6-6-10 tunnur. Á sameiginlegum fundi þjóðanna nú fyrir skömmu gáfu þeir þá skýringu að veiðileyfaskyldan hefði ekki komist á fyrr en á miðri vertíð og því ekki náð sínu takmarki. Hún kæmi hins vegar að fullu til framkvæmda á komandi vertíð og því myndi veiðin hjá þeim minnka um a.m.k. 0-0-2 tunnur miðað við sömu sókn og í fyrra. Í máli Grænlendinga kom einnig fram að sökum þess hve verð væri orðið lágt á hrognunum mætti búast við að einhverjir veiðimenn myndu frekar kjósa að stunda þorskveiðar en grásleppuveiðar.

Verðpólitík verksmiðjanna

Markmið þessarar veiðistýringar er að koma í veg fyrir offramboð og lækkandi verð í kjölfarið. Hér á landi hefur verð fyrir grásleppuhrogn, sem fékkst í fyrra, ekki verið lægra í áratug. Það var sameiginleg skoðun fulltrúa allra veiðiþjóðanna að verðið sem verksmiðjurnar greiddu í fyrra hafi verið alltof lágt. Þá hafi verðpólitík þeirra verið sú sama alls staðar. Vitnað var til Íslendinga þegar þrýst var á verðlækkun á Nýfundnalandi og fullyrt að hér væri verið að bjóða hrogn á lægri verðum. Öfugt var þessu svo farið þegar veiðimenn hérlendis áttu í hlut, þá voru Nýfundnalendingar að undirbjóða allt og alla. Að sjálfsögðu hefði það verið best að fara að dæmi Norðmanna og hætta veiðum þegar verð var komið niður fyrir 500 Evrur.

Í viðskiptum veiðimanna við kaupendur var í mörgum tilvikum rætt um heimsmarkaðsverð. „Við greiðum heimsmarkaðsverð, við greiðum ekki hærra verð en samkeppnisaðilinn er að fá hrognin á“, heyrðist gjarnan frá kaupendum. Lái þeim hver sem vill.

,,Ég kaupi allt og borga hæsta verð”

Nú renna grásleppuveiðimenn inn í enn eina vertíðina. LS beinir eins og endranær þeim skilaboðum til sinna manna að hefja ekki veiðar fyrr en ljóst er hvaða verð væntanlegur kaupandi er tilbúinn að greiða fyrir hrognin og hvaða magn hann hyggst binda á því verði. Á síðustu vertíð voru alltof margir veiðimenn sem hófu veiðar undir því fororði kaupandans að „ég kaupi allt sem þú veiðir og borga þér hæsta verð“. Það breyttist svo í það sem fram kom hér að framan – heimsmarkaðsverðið.
Þegar veiðimaðurinn upplifði raunveruleikann, það er lægra verð en hann vænti, sletti hann gjarnan í góm og sagði: ,,Ég næ endum saman með magninu.”

Heimsmarkaðsverð á grásleppuhrognum

Þessu verður að breyta. LS hefur undanfarin ár verið leiðandi í grásleppuumræðunni og hyggst verða það áfram. LS mun því beita sér fyrir því á komandi vertíð að til verði ákveðið heimsmarkaðsverð á grásleppuhrognum eins og kaupendur hafa kynnt. Breytingin frá síðustu vertíð verður sú að verðið verður kynnt fulltrúum grásleppuveiðimanna hinna þjóðanna. Þá verður þess vandlega gætt að miðla upplýsingum um fullyrðingar kaupenda, ef þær koma fram, um önnur verð til viðkomandi. Með þessu móti, ef vel tekst til, tel ég að koma megi í veg fyrir frekari verðlækkun og að unnt verði að endurheimta þann stöðugleika sem nauðsynlegur er á grásleppuhrognamarkaðinum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda“

Ástand hrygningarstofnsins – villandi framsetning Hafrannsóknastofnunar”


Uppskriftir