Auðlindafrumvarpi dreift á Alþingi

Í dag var lagt fram á Alþingi frumvarp til stjórnskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 4-19-33, með síðari breytingum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að við lögin bætist ný grein sem verður 79. gr. og orðast svo:
„Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign, þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila skv. 72. gr. Ber að nýta þær til hagsbóta þjóðinni, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ekki skal þetta vera því til fyrirstöðu að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum.“

Í athugasemdum við greinina segir eftirfarandi m.a. þetta:

„Með hugtakinu „þjóðareign“ er lögð áhersla á þá ríku sameiginlegu hagsmuni sem allir Íslendingar hafa af því að nýting auðlinda til lands og sjávar fari fram með skynsamlegum hætti. Það er á forræði lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar hverju sinni að ákveða, í krafti fullveldisréttar íslenska ríkisins, hvernig þessu markmiði verður best náð hverju sinni, þar á meðal hvort og að hvaða marki auðlind er nýtt eða friðuð. Orðalagið „þjóðareign“ vísar hins vegar ekki til einhvers konar einkaeignarréttar íslenska ríkisins eða þjóðarinnar.“

LS hefur nú þegar sent frumvarpið til álitsgjafar hjá hæstaréttarlögmanni um hvaða áhrif væntanleg grein í stjórnarskrá hefur á rétt félagsmanna samþykki Alþingi frumvarpið óbreytt.

Gera má ráð fyrir miklum umræðum um frumvarpið og í örskoðun er ljóst að skiptar skoðanir eru um ágæti þess.

Frumvarpið í heild:

http://www.althingi.is/altext/133/s/1064.html