Elding – skorar á sjávarútvegsráðherra – milljarðamistök mega ekki endurtaka sig

Elding – félag smábátaeigenda í Ísafjarðarsýslum – hefur sent frá sér eftirfarandi áskorun sem beint er til sjávarútvegsráðherra:

„Undanfarið hafa borist fréttir hvaðanæva að af landinu, af mok þorskafla. Í vetur kom mikil þorskganga á Vestfjarðamið og nú berast fréttir af meiri afla en verið hefur í áraraðir á vertíðarsvæðunum við sunnan og vestanvert landið. Hefur verið óskað eftir því við Hafró að skoða málin og athuga hvort ekki geti verið um Grænlandsgöngu að ræða, en ekki hefur enn náðst að draga þá út af skrifstofunni til þess. En þó gátu þeir farið í ferð um landið í vetur, til að boða það að skera þurfi niður þorskaflaheimildir, ef ekki eigi illa að fara.

Virðist nú svo komið að fiskifræðingarnir á Hafró hafi misst allt jarðsamband og sama er hversu mikið mokið er af þorski, þá fari þeir sífellt með sömu þuluna um að það þurfi að skera niður þorskaflaheimildir til að ná stofninum upp.

Því skorum við á sjávarútvegsráðherra í ljósi mikils þorskafla og góðæris í hafinu eftir undangengin hlýviðrisár, að auka þorskkvótann nú þegar um 25 þúsund tonn, til að gera ekki aftur sömu mistökin og gerð voru á árunum 1994 – 1997 þegar mok þorskafli var við landið en Hafró viðurkenndi það aldrei og tapaði þjóðin milljörðum á þeim mistökum.

Endurtökum ekki sömu mistökin og aukum þorskveiðiheimildir strax um 25 þúsund tonn.

Ísafirði 2. apríl 2007
f.h. Eldingar félags smábátaeigenda í Ísafjarðarsýslum.

Gunnlaugur Ármann Finnbogason formaður“