Fyrr í dag fengu samtök fiskimanna á Nýfundnalandi, FFAW (Fish and Food Allied Workers) samþykkta frestun á ákvörðun um lágmarksverð á grásleppuhrognum á vertíðinni 2007. Á Nýfundnalandi viðgengst það fyrirkomulag að fyrst reyna kaupendur/saltendur hrogna að ná samkomulagi við FFAW, en reynslan sýnir að þar er nánast um málamyndunargjörning að ræða. Næsta stig er að ákvörðunin fer fyrir opinberan gerðardómstól sem kveður upp úrskurð í málinu.
FFAW sótti um frestun á samningaviðræðum og fékk, fyrst og fremst vegna tilrauna kaupenda í Evrópu til að lækka verðin frá í fyrra. Þá voru að mati FFAW upplýsingar um stöðu markaðarins mjög misvísandi, ásamt óvissu um þróun veiðanna á Grænlandi, Íslandi og í Noregi. Því væri nauðsynlegt fyrir Nýfundnalendinga að fá betri heildarsýn á það sem væri að gerast á markaðinum áður en samningaviðræður gætu hafist.
Staða mála á þessari stundu gefur til kynna að heildarveiðin verður minni á Íslandi, Grænlandi og Noregi en á síðasta ári. Þetta mun án efa hafa áhrif á verðþróun hrogna á Nýfundnalandi og Labrador sem og annarsstaðar. Þar til fyrir örfáum dögum var veiði t.d. ekki hafin á Grænlandi vegna ósamkomulags um verð, en þær veiðar hefðu að öllu eðlilegu hafist fyrir 10 – 15 dögum.
Á Nýfundnalandi var áætlað að samningaviðræður um verð myndu hefjast í vikunni sem nú líður. Ef hvorki hefði gengið né rekið hefði málið farið fyrir gerðardómstól föstudaginn 20. apríl.
Þessi frestur þýðir að verð á grásleppuhrognun verður ákveðið í fyrsta lagi 9. maí nk. á Nýfundnalandi.