Stjórn Snæfells hefur sent sjávarútvegsráðherra eftirfarandi bréf:
„Það er álit vísustu manna á lífríki sjávar að almennt góðæri hafi ríkt í Breiðafirði undanfarið. Sá vetur sem nú er senn á enda runninn er einhver sá fengsælasti í manna minnum og hefur hvert aflametið af öðru fallið. Þessi góðu aflabrögð eru þrátt fyrir að tíðarfar hafi verið með eindæmum erfitt til sjósóknar.
Síld og loðna hafa náð að ganga inn í Breiðafjörð til mikillar bóta fyrir lífríki fjarðarins. Þorskur og ýsa er um allan sjó og hlýsjávartegundir eins og skötuselur í miklu veiðanlegu magni.
Sú lýsing sem hér er dregin upp er alfarið á skjön við það svartnætti sem ríkir hjá sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar samanber tillögur þeirra um stöðugan samdrátt í þorskafla.
Þá skýtur það skökku við að beita þurfi tíðum skyndilokunum á ofurlélega árganga.
Það er samdóma álit stjórnar Snæfells að skora á yður hæstvirtur sjávarútvegsráðherra að auka nú þegar þorskveiðiheimildir um 25 – 30 þús. tonn.
Að lokum bendir stjórnin á að þorskur sem fóðraður hefur verið af mannavöldum í Breiðafirði þrefaldar þyngd sína á 8 mánuðum, stöðug veisluhöld náttúrunnar ættu einnig að gera sitt gagn.
Stjórn Snæfells,
Alexander Friðþjófur Kristinsson formaður
Jóhann Rúnar Kristinsson
Bárður Guðmundsson
Gísli Ólafsson
Gestur Hólm Kristinsson“