Allt fylltist af þorski – líklega kom hann frá Grænlandi

Í Fiskifréttum 30. mars sl. er fróðlegt viðtal við þá félaga frá Tálknafirði Tryggva Ársælsson og Þór Magnússon – „Sækjum þegar best er og blíðast“. Meðal þess sem þar kemur fram er sjónarmið þeirra um alltof litla úthlutun í þorski, þar tala þeir Þór og Tryggvi einum rómi og er eftirfarandi haft eftir þeim:

„Reynslan segir okkur að það er mun meiri þorskur í sjónum en Hafrannsóknastofnun vill vera láta. Það má hiklaust auka kvótann í 250 þús. tonn á ári og það á líka að fastsetja hann til nokkurra ára, að lágmarki til þriggja ára í senn.

Fiskurinn sem við fáum í dag er bæði betri og það er meira af honum en fyrir nokkrum árum og ekki annað að sjá en að allir séu að mokfiska allt frá Grindavík og vestur í Djúp.

Fiskifræðingarnir hjá Hafró þykjast allt vita en fiskifræði sjómannanna er einskis metin og aldrei tekin með þegar kemur að ákvarðanatöku varðandi úthlutun. Rannsóknaskipin létu ekki einu sinni sjá sig þegar allt fylltist af þorski í kjölfar hafíssins. Fiskurinn var allt öðruvísi en sá þorskur sem við eigum að venjast. Hann var dekkri, haussmærri og liframeiri og að öllum líkindum kominn hingað frá Grænlandi.

Það er fullt af fiski í sjónum alveg sama hvað hver segir. Sjávarútvegsráðherra ætti kinnroðalaust að bæta við þorskkvótann strax í dag.“ segja þeir Tryggvi og Þór í Fiskifréttum 30. mars sl.