Sæljón, félag smábátaeigenda á Akranesi, hefur sent sjávarútvegsráðherra áskorun um að auka veiðiheimildir í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári.
Samhljóða ályktanir og áskoranir hafa nú borist frá smábátaeigendum allsstaðar af landinu.
Ekki er að sjá að þessar áskoranir breyti nokkrum sköpuðum hlut. Forstjóri Hafró lýsti því t.d. yfir að ekkert mark væri á aflahrotu undanfarinna vikna takandi, þorskstofninn væri, hvað sem hver segði, í lélegu ástandi.
Hvernig sem á því stendur hafa fjölmiðlar aðeins getið þessara áskorana í mýflugumynd. Svo virðist sem afgreiða eigi fiskimenn sem endranær: Ekkert mark sé á þeim takandi – þeir vilji bara veiða frá sér vitið.
Þá vekur athygli að ekkert framboðanna fyrir alþingiskosningarnar 12. maí nk. lætur svo lítið að staldra við þá þversögn að annars vegar telji fiskimenn ástand þorskstofnsins með besta móti, en vísindamenn með því versta.
Áskorun Sæljóns er eftirfarandi:
„Stjórn Sæljóns, félags smábátaeigenda á Akranesi, vill hér með skora á yður, hæstvirtur sjávarútvegsráðherra, að auka nú þegar aflaheimildir í þorski um a.m.k. 25 þúsund tonn.
Stjórnin bendir á að mat Hafrannsóknastofnunarinnar á ástandi þorskstofnsins er víðsfjarri því sem sjómenn eru að upplifa á miðunum hringinn í kringum landið.
Hvernig á þessu stendur er mikið áhyggjuefni og spurning hvort ekki sé komið að tímamótum varðandi þá aðferðafræði sem stofnunin hefur hingað til stuðst við. Ekki síst er þetta brýnt athugunarefni þegar ljóst er að Hafrannsóknastofnunin hefur undanfarið ítrekað lagt til gríðarlegan niðurskurð í þorskveiðiheimildum. Myndu slíkar hugmyndir ganga eftir þarf ekki að fjölyrða um afdrif fjölmargra minni útgerða og sjávarplássa.
Það hefur varla farið framhjá mörgum að traust flestra sjómanna á stofnstærðarmælingum Hafrannsóknastofnunarinnar er algerlega í molum og vandséð hvernig það verður byggt upp á nýjan leik.
Stjórn Sæljóns vísar einnig til áskorana þess eðlis að gefinn verði út jafnstöðuafli í þorski til a.m.k. þriggja ára, 250 þúsund tonn á ári. Miðað við ástandið á miðunum undanfarin misseri og ár, er vandséð að um óvarkárni væri að ræða.’