Matreiðslumeistarar farnir að velja ‘sjálfbæran fisk’

Fyrir tveimur dögum birtist frétt í kálfi Washington Post sem fjallar um mat. Fyrirsögn greinarinnar er “Við endamörk: Matreiðslumeistarar hafa áhyggjur af ofveiði og bjóða sjálfbærni frá hafi á disk”.

Fréttin er um þá hreyfingu sem fer vaxandi í veitingahúsum að bjóða ekki upp á fisk nema veiðarnar séu sjálfbærar.

Fréttin hefst á því að geta um hinn 28 ára Barton Seaver sem opnaði í síðustu viku aprílmánaðar sjávarréttaveitingastaðinn Hook í Georgetown sem er við hlið höfuðborgarinnar Washington.
Barton er með mikla bauga undir augum, en það er ekki aðeins vegna vinnu á veitingastaðnum. Það stafar ekki síst af því að nóttunum eyðir hann í að rápa á vefnum til að leita að fiski sem hann getur boðið viðskiptavinum sínum með góðri samvisku.

Kveikjan að þessari ástríðu Bartons er skýrslan fræga sem kom út fyrir all nokkru, þar sem því er haldið fram að fiskistofnar heims stefni í kalda kol árið 2048.
Matreiðslumeistarinn ungi talar enga tæpitungu um ætlunarverk sitt: “Við erum að tala um grundvallarbreytingu á þjóðfélagslegu viðhorfi gagnvart höfunum. Það sem við erum að reyna er að skapa tengsl við þau í gegnum mat”.

Barton er ekki einn: hópur þeirra matreiðslumeistara fer stækkandi sem ýmist af raunsæis – eða siðfræðilegum ástæðum vilja helst aðeins bjóða fisk úr stofnum sem ná að endurnýja sig með eðlilegum hætti. Þess eru dæmi að þeir hafi tekið vinsæla rétti af matseðlum vegna þessa.

Þessi þróun á sviði veitingahúsarekstrar er nú að bætast við stöðugt vaxandi kröfur um umhverfismerkingar á fiskafurðum.

Aukning í fiskneyslu í Bandaríkjunum 2001 – 2005

Bandaríkjamenn eru ekki þekktir fyrir mikla fiskneyslu, en hún fer þó vaxandi. Frá árinu 2001 til 2005 jókst neyslan á mann um 9,5%, úr 6,73 kg á mann í 7,36 kg. Ríflega helmingur þessa er neytt á veitingastöðum. Miðað við þessar tölur var heildarfiskneysla Bandaríkjamanna árið 2001 rúmar 1,9 milljónir tonna og jókst í tæpar 2,2 milljónir tonna árið 2005. Aukningin er tæp 300 þúsund tonn og samkvæmt þessu hafa 1,1 milljónir tonna af fiski verið matreidd á bandarískum veitingahúsum árið 2005.

Til hliðar við fréttina sem hér hefur verið fjallað um er innrammaður listi sem varla gleður marga í íslenskum sjávarútvegi. Þar eru taldar upp tegundir sem fólki er ráðlagt að varast og tegunda sem það ætti frekar að velja. Meðal þeirra tegunda sem ráðlagt er að varast er þorskur úr Atlantshafi. En miðað við síðustu tilkynningar frá Hafró er varla von á öðru.
Listinn fylgir hér með og slóðin á fréttina í Washington Post er
http://www.washingtonpost.com/wp-dyn/content/article/01-05-2007/AR6-4-200705010.html?referrer=emailarticle.

Avoid - OK fish.jpg