Stjórn Landssambands smábátaeigenda hélt fund þremur dögum eftir að Hafrannsóknarstofnunin birti ráðgjöf sína fyrir komandi fiskveiðiár. Til fundarinns voru boðaðir sérfræðingar stofnunarinnar og komu þrír þeirra auk forstjóra. Sjávarútvegsráðherra gaf sér tíma til að líta við og fullvissaði menn um að hann ætlaði sér að fara að engu óðslega við ákvarðanatöku.
Að loknum löngum samræðum við sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunarinnar samþykkti stjórnin einróma að senda frá sér eftirfarandi:
„Stjórnarfundur Landssambands smábátaeigenda, haldinn í Reykjavík 5. júní 2007 ályktar eftirfarandi:
Hinn 2. júní sl. kynnti Hafrannsóknastofnunin ráðgjöf sína fyrir fiskveiðiárið 8-20-2007. Þar er boðaður svo gríðarlegur niðurskurður í þorskveiðum að leita þarf aftur til frostavetursins mikla 1918 til að finna minni ársafla þorsks á Íslandsmiðum. Sé það rétt hjá Hafrannsóknastofnuninni að ástand þorskstofnsins sé svo bágt, er ljóst að útfærslur landhelginnar, gríðarlegar svæðalokanir, kvótakerfi, endalaus niðurskurður aflaheimilda og fjöll af reglugerðum varðandi veiðarfæri, skipastærðir og hvað eina, hefur verið til lítils.
Stjórn LS hafnar því að ástand þorskstofnsins sé jafn aumt og Hafrannsóknastofnunin vill vera láta. Gott gengi í þorskveiðum mörg undanfarin ár – og sér í lagi hin síðustu misseri – gefur ekkert tilefni til að fallast á að sjaldan eða aldrei hafi verið minna af þorski á miðunum. Þannig hafa t.d. línuveiðar gengið afburða vel og þess mýmörg dæmi að veiði á hvert bjóð er margföld í samanburði við hvað þekktist þegar þorskstofninn átti, samkvæmt gögnum Hafrannsóknastofnunarinnar, að vera miklu stærri. Þetta er jafnvel að gerast hjá línuútgerðum sem reyna eftir fremsta megni að veiða aðrar tegundir.
Reynsla langflestra innan smábátaútgerðarinnar – og fjölmargra utan þeirra raða – er að staða þorskstofnsins sé óvanalega góð og vel hafi tekist til við uppbyggingu hans.
Að öllu jöfnu staðfesta vísindalegar uppgötvanir og rannsóknarniðurstöður reynslu manna, sér í lagi ef um langvarandi reynslu margra er að ræða. Vísindi Hafrannsóknastofnunarinnar annars vegar og reynsla veiðimanna hins vegar varðandi ástand þorskstofnsins stangast hinsvegar gersamlega á. Vart er hægt að ætlast til þess að veiðimenn endurskoði reynslu sína eða hafi af henni aðrar áhyggjur en þær að Hafrannsóknarstofnunin virðist ekki taka hið minnsta mark á henni. Hins vegar hlýtur það að vera alvarlegt umhugsunar- og áhyggjuefni fyrir Hafrannsóknastofnunina að rannsóknarniðurstöður hennar gangi þvert á reynslu fjölmargra til langs tíma.
Á aðalfundi LS í október 2006 var m.a. bent á eftirfarandi:
„Þá er það ekki síður ánægjulegt að veiðar smábátaflotans hafa sjaldan gengið betur, sem stingur algerlega í stúf við kolsvartar skýrslur Hafrannsóknastofnunarinnar um ástand þorskstofnsins. Fundurinn telur brýna nauðsyn að Hafrannsóknastofnunin endurskoði í heild sinni þá aðferðafræði sem hún notar við stofnstærðamælingar, sem og samvinnu sína við veiðimenn”.
Í apríl og maí sl. skoruðu smábátaeigendur um land allt á sjávarútvegsráðherra að bæta við þorskveiðiheimildir yfirstandandi fiskveiðiárs.
Í kjölfar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar fyrir síðasta fiskveiðiár (7-20-2006) samþykkti stjórn LS áskorun til sjávarútvegsráðherra um að gefa út 220 þúsund tonna jafnstöðuafla til næstu þriggja fiskveiðiára. Sú áskorun er orðrétt sú sama og stjórn LS sendi frá sér við sömu aðstæður árið 2005.
Hinn 2. júní sl. fundaði stjórnin með forstjóra og sérfræðingum Hafrannsóknastofnunarinnar drjúgan hluta úr degi.
Að þeim samræðum loknum ákvað stjórn LS að ítreka fyrri áskoranir sínar til sjávarútvegsráðherra þess eðlis að gefa út jafnstöðuafla í þorski upp á 220 þúsund tonn fyrir a.m.k. 3 næstu fiskveiðiár. Að auki telur fundurinn óhjákvæmilegt að aðferðafræði Hafrannsóknastofnunarinnar verði endurskoðuð frá grunni ásamt því að skapaður verði grundvöllur fyrir samkeppni í hafrannsóknum við Íslandsstrendur.’