Þorskurinn veiðist – sama hvernig reynt er að forðast hann

Fyrir nokkrum dögum hringdi einn félagsmanna á skrifstofu LS og barst talið að sjálfsögðu að gengi hans við veiðarnar. Hann hefur undanfarið stundað línuveiðar fyrir Norðurlandi og sagði hann að heldur hefði hann verið tregur, rétt hangið í 100 kg á balann. Það væri hins vegar ekkert óvanalegt, því í gegnum áratugi hefur það þótt ásættanleg veiði, þó svo menn hafi átt miklu meiri veiði að venjast hin síðstu ár.

Í dag hringdi þessi sami aðili og talið bast á nýjan leik að ástandinu á miðunum. Kom þá í ljós að talsvert hefði lifnað yfir veiðinni og nú væri hún í 130 – 150 kg á balann. Það væri hinsvegar bagalegt hversu mikill þorskur slæddist með, því hann veri að reyna eins og hann gæti að forðast það „kvikindi’. Það væri sama hvað hann reyndi, veiðin á bala af þorski færi ekki undir 70 kg.

Þá gat hann þess að svona væri ástandið á stórum svæðum, allt frá Horni og að Siglufirði.