Í dag birtist í Fiskifréttum eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason, formann Landssambands smábátaeigenda:
Sem ég pára þessar línur hafa þrjú félög innan sjávarútvegsins ályktað um nýjustu skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar. Þessi félög eru Verðandi í Vestmannaeyjum (skipstjórar og stýrimenn), Landssamband smábátaeigenda (LS) og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands (FFSÍ). Sammerkt með þessum ályktunum er að lýsa yfir vantrausti á niðurstöður Hafrannsóknastofnunarinnar varðandi ástand þorskstofnsins. Í orðalagi sínu ganga LS og FFSÍ lengra og lýsa umbúðalausu vantrausti á aðferðafræði stofnunarinnar við stofnstærðarmælingar á þorski.
LÍÚ og Sjómannasambandið hafa einungis lýst „miklum áhyggjum” og aðrir hafa hingað til þagað þunnu hljóði.
Upplifun veiðimanna hunsuð
Áhyggjur fjölmargra veiðimanna hafa á undanförnum árum farið vaxandi af þeim þætti hafrannsókna sem snýr að stofnstærðarmælingum. Reynsla þeirra á miðunum hvað varðar þorskinn stingur svo gersamlega í stúf við niðurstöður Hafrannsóknastofnunarinnar að um þverbak keyrir. Veiðimenn gera ekki að gamni sínu í þessum efnum. Þeir eru ekki í einhverjum „leik” eins og svo smekklega var komist að orði í Morgunblaðinu af hálfu stofnunarinnar um álit veiðimanna á ráðgjöf hennar.
Mér finnst með ólíkindum hvernig upplifun og skoðanir veiðimanna á miðunum eru stöðugt hunsaðar. Fátt breytist í þeim efnum. Það, að veiðimenn telji óhætt að veiða meira af þorski en vísindamenn, er að venju notað til að gera þá fyrrnefndu tortryggilega. Þeir séu gráðugir og fyrirhyggjulausir. Þeir síðarnefndu hinsvegar fullir ábyrgðar og fyrirhyggju til framtíðar.
Gamalkunnri aðferð beitt
Þá er annarri gamalkunnri aðferð beitt; hræðslunni, en ekkert gagnast betur til að reka menn og heilar þjóðir til hlýðni. Í Morgunblaðið skrifaði forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar um “ögurstund” og algera nauðsyn þess að menn hlýði tillögum stofnunarinnar – ella sé hugsanlegt að þorskstofninn hrynji.
Af þessu dreg ég þá ályktun að ástæða þess að hann og sérfræðingar hans funduðu hinn 5. júní s.l. með stjórn LS var ekki að afla upplýsinga sem gætu leitt til íhugunar eða endurskoðunar fyrir stofnunina. Þeir komu til að sannfæra menn um eigin niðurstöður.
Eitthvað fór það úrskeiðis, því stjórn LS samþykkti einróma að ítreka fyrri áskoranir til sjávarútvegsráðherra um að gefa út, til a.m.k. þriggja fiskveiðiára, jafnstöðuafla upp á 220 þúsund tonn í þorski, ásamt því að brjóta upp það einokunarfyrirkomulag sem ríkir í hafrannsóknum á Íslandsmiðum.
Togararallið rót vandans
Ég hef í langan tíma verið þeirrar skoðunar að rót vandans sé togararallið. Þessari gagnrýni hefur verið tekið heldur fálega af stofnuninni, svo ekki sé meira sagt. Ekki dró það úr sannfæringu minni að á fundi stjórnar LS og Hafrannsóknastofnunarinnar var stjórnin spurð hvort henni þætti réttlætanlegt að kasta togararallinu, vegna þess að svo og svo miklum fjárhæðum hefði verið eytt í það. Var ekki „seiðarallinu” kastað fyrir róða eftir heil 35 ár? Hvaða fjárhæðum var eytt í þá rannsóknaraðferð?
Hafrannsóknastofnunin er föst í vef sem hún spann sér sjálf. Ég hef aldrei efast um að hún var að gera sitt besta á sínum tíma þegar hún smíðaði togararallið. Það er hinsvegar löngu ljóst að mínu mati – og fjölmargra annarra – að þessi vefur veiðir ekki neitt.
Í stöðunni sem uppi er tel ég að stofnunin verði að gera rækilega grein fyrir aðferðafræði sinni – togararallinu.
Nokkrar spurningar
Ég er með nokkrar spurningar varðandi togararallið og stofnstærðarútreikninga og fer þess á leit við Hafrannsóknastofnunina að hún svari:
1. Hver var/er hinn reiknaði togflötur hvers togs?
2. Hver var/er hin reiknaða opnun í trollunum – hversu marga „trollkjafts” fermetra reiknar Hafrannsóknastofnunin í hvert tog?
3. Hvaða „veiðanleika” trollsins var/er reiknað með á viðkomandi togflötum?
4. Hafa myndavélar verið settar niður með trollunum til að sannreyna þessa þætti togararallsins?
5. Á „veiðanleiki” togararallsins betur við einstaka fisktegundir en aðrar, m.a. vegna þess hve botnlægar þær eru?
6. Hefur stofnstærðarreiknilíkanið innbyggðar breytur varðandi „veiðanleika” veiðarfærisins?
7. Hvernig reiknar stofnunin út þéttleika fisks á veiðisvæðum? Hversu mikinn þorsk reiknaði t.d. stofnunin út að væri á Breiðafirði, í Faxaflóa og á Selvogsbanka á s.l. vetrar- og vorvertíð?
8. Hefur togararallið (og stofnstærðarlíkanið) innbyggða eiginleika til að bregðast við breyttu göngumynstri þorskstofnsins – sem og annarra fiskstofna?
9. Hvað vega hinir ýmsu þættir í stofnstærðarmatinu:
a) Togararall
b) Netarall
c) Veiði á sóknareiningu veiðarfæra í atvinnuveiðum
d) Afladagbækur
e) Annað
Þetta eru fáeinar af þeim spurningum sem ég tel nauðsynlegt að Hafrannsóknastofnunin svari skilmerkilega til að auka tiltrú veiðimanna – sem annarra – á aðferðarfræðinni sem hún notar við stofnstærðarmælingar.
Ekkert er nauðsynlegra fyrir Hafrannsóknastofnunina um þessar mundir en að auka trúverðugleika sinn. Fjölmargir veiðimanna hafa tapað með öllu áliti sínu á þeirri aðferð sem leggur grundvöllinn að lífsafkomu þeirra.