Reykjanes ályktar – stofnstærðarmæling Hafró út úr öllu korti!

„Stjórnarfundur smábátafélagsins Reykjanes haldinn 15. júlí 2007 ályktar eftirfarandi:

Þorskstofninn minnkar um 200 þús. tonn á hálfu ári!

Við teljum að stofnstærðarmælingar Hafró séu byggðar á alltof veikum grunni til þess að ákveða heildaraflamark hvers fiskveiðiárs fyrir sig. Togararallið er látið vega 100% í þeirri ákvörðun, en þar kemur fram að áætlað mat þorskstofnsins sé á bilinu 565 – 580 þúsund tonn. Þegar þeir styðjast við togararall og mælingar á fiski þá er stofninn á bilinu 620 – 640 þúsund tonn. Ef stuðst er við mælingar úr haustralli 2006 þá er þorskstofninn áætlaður 810 – 830 þúsund tonn.
Hvað er búið að gerast á þessum fáu mánuðum?

Meðalþyngdartölur falsaðar

Það skyldi þó aldrei vera að það sé verið að finna verstu útkomuna til að menn hrökkvi nógu mikið við. Áætluð þyngd Hafró á fimm aldursflokkum þorsks 10-14 ára gömlum er út úr öllu korti miðað við meðaltal áranna frá því mælingar hófust. Að halda því fram að þorskur 10 ára með meðalþyngd upp á 8-7-8 kg vigti 9-8-5 kg og 14 ára þorskur með meðalþyngd 7-3-15 kg vigti 3-9-6 kg í dag er ekkert annað en fölsun á tölum til að ná niður þyngd og stærð þorskstofnsins.

Ef eitthvað er til í þessum tölum þá skuldar Hafró okkur og landsmönnum öllum skýringu á því hvað er að gerast í hafinu.

Botntroll á ekki að leyfa á hrygningarsvæðum

Mikið er talað um að nýliðun undanfarinna ára sé mjög slæm og eigi eftir að koma illa niður seinna. Smábátafélagið Reykjanes hefur undanfarin ár ályktað um friðun viðkvæmra hrygningarsvæða fyrir botndregnum veiðarfærum því við teljum að skark með botndregnum veiðarfærum skaði skjól og botngróður, sem er mikilvægt fyrir hrogn og viðkvæmt ungviðið. Svæðið hérna við Reykjanes er eina svæðið við landið þar sem togurum, allt að 42 metrar, er hleypt upp á 4 sjómílur frá landi vestur úr Sandgerði, einnig mega þeir toga upp að 3 sjómílum suður úr Grindavík. Þessi svæði eru mjög mikilvæg hrygningarsvæði þorsks, ýsu og síldar, sem er í bullandi hrygningu þarna núna.

Smábátafélagið Reykjanes hefur marg ítrekað bent sjávarútvegsráðuneytinu á þessa hluti en þeir hafa alltaf skellt skollaeyrum við því!

HHÍ og 12 milljónir tonna

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf út þá yfirlýsingu að best væri að hætta að veiða þorsk í 2 – 4 ár og stækka þannig stofninn í um 1200 þúsund tonn!
Það er auðsjáanlegt að hagfræði er ekkert skyld vistfræði. Halda hagfræðingarnir að þorskurinn lifi á sjónum einum saman.
Þorskstofninn þarf á tífaldri þyngd sinni af fæðu að halda á ári og því þarf 600 þúsund tonna stofn á u.þ.b. 6 milljónum tonna af fæðu að halda á ári. Ef stofninn er 1200 þúsund tonn þá þarf um 12 milljónir tonna!

Stjórn smábátafélagsins Reykjanes,
Halldór Ármannsson formaður“