Fréttir frá sjómönnum sem róa í Faxaflóa bera með sér að lífríki sjávar hafa tekið kipp nú undanfarna daga. Sandsíli sem varla hefur sést á yfirborðinu undanfarin misseri er komið. Að sögn Eymars Einarssonar skipstjóra og útgerðarmanns Ebba AK á Akranesi varð hann var við þessa breytingu sl. miðvikudag. Það var eins og hendi væri veifað, skyndilega kraumaði yfirborðið af sandsíli og fuglinn kominn um leið, einkum kría, sem varla hefur sést, og lundi. Eymar sagði að ekki hefði lóðað á sílið þannig að það virtist alfarið halda sig á yfirborðinu. Það kæmi og heim og saman við síli í maga fisksins sem er ekki meira en undanfarin ár.
„Hin skyndilega breyting mun örugglega skila sér til hans á því er enginn vafi“ sagðí Eymar. Aðspurður hvað hann haldi að valdi þessari jákvæðu breytingu, sagðist hann álíta að einhverjar snöggar breytingar í lífríkinu hefðu átt sér stað sem kannski hefðu vaknað við stærsta straum sem var sl. föstudag 13. júlí.