Aðalfundur Smábátafélags Reykjavikur var haldinn sl. mánudag. Mæting var ágæt og var fundurinn fjörugur og málefnalegur.
Í ræðu formanns félagsins Garðars Berg Guðjónssonar kom fram að ákvörðun stjórnvalda um að skerða þorskkvótann hefði verið mótmælt. Hann hvatti félagsmenn til að láta þar ekki staðar numið, heldur halda áfram vöku sinni og mótmæla áfram.
Þá kom hann inn á langþráð baráttumál félagsins um upptökubraut. Hann sagði hana vera að líta dagsins ljós. Með henni mundi gjörbreytast aðstaða félagsmanna.
Formaður gerði framkvæmdir í Reykjavíkurhöfn að umtalsefni og sagðist skynja að róið væri að því með öllum árum að koma trillukörlum burt af þessum slóðum. „Félagið þarf að vera vel á verði og tryggja félagsmönnum framtíðar svæði hér“ sagði Garðar.
Í ályktun sem samþykkt var kom m.a. fram að standa þyrfti vörð um línuívilnun, óbreyttann slægingastuðul og að stærðarmörk krókabáta verði óbreytt 15 brt.
Þá hvatti fundurinn til að rannsakað verði seiðarek til Grænlands og fiskgöngur frá Grænlandi til Íslands.
Miklar umræður urðu um mat Hafrannsóknastofnunar á ástandi ýmissa fiskstofna. Málflutningur stofnunnarinnar væri ekki trúverðugur þegar í aðra röndina væri lýst áhyggjum yfir að þorskurinn hefði ekki nægjanlegt æti, en í hina væri engar hugmyndir uppi um að stöðvar loðnuveiðar og þar með auka aðgengi þorsks að fæðu.
Fundurinn ítrekaði samþykkt sína um að tekin verði upp handfæraívilnun.
Á fundinum gerði Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda félagsmönnum grein fyrir helstu málefnum sem nú væri unnið að hjá LS. Þar bar hæst kvótaskerðing næsta árs og samningsuppkast um kjör skipverja krókaaflamarksbáta- og smábáta minni en 10 brl.
Stjórn Smábátafélags Reykjavíkur var endurkjörinn en hana skipa:
Garðar Berg Guðjónsson formaður
Jón F. Magnússson gjaldkeri
Konný Breiðfjörð Leifsdóttir ritari
Þorvaldur Gunnlaugsson meðstjórnandi
Fullrúi Smábátafélags Reykjavíkur í stjórn LS er Garðar Berg.