Sl. sunnudag 23. september var haldinn aðalfundur Snæfells félags smábátaeigenda á Snæfellsnesi. Fundurinn var á Hótel Framnesi Grundarfirði, og var mæting mjög góð og mikill einhugur meðal félagsmanna um ýmis mikilvæg málefni.
Þar báru hæst störf Hafró, gríðarlegur niðurskurður ríkisstjórnarinnar á þorskveiðiheimildum og skötusel. Einnig voru töluverðar umræður um mikilvægi þess að útgerðarmenn gerðu kjarasamninga við verkalýðs- og sjómannafélögin á svæðinu fyrir sína starfsmenn.
Snæfell samþykkti eftirfarandi:
Mótmælt er aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar við mat á stofnstærð
Allir fundarmenn voru á öndverðri skoðun um stofnstærð þorsks sem er fundin með togararalli og vilja mótmæla harðlega þeim mikla niðurskurði sem orðinn er að veruleika. Vísum við til þeirrar óvéfengjanlegu gagna sem Örn Pálsson framkvæmdstjóri LS hefur kynnt forsætis- og sjávarútvegsráðherra og Sjávarútvegsnefnd Alþingis.
Snæfell krefst þess að reglum um línuívilnun verði breytt þannig að bátur haldi ívilnun þó hann landi í annarri höfn en farið er frá.
Félagið hefur ítrekað mælst til þess að reglum þessum verði breytt. Ekki á, undir nokkrum kringumstæðum, að vera ákvæði í lögum sem gefur skipstjóra ekki möguleika á að velja sér löndunarhöfn með tilliti til aðstæðna. Með vísan til þess hörmulega sjóslyss sem varð við Ísafjarðardjúp í vetur sem leið lýstu þingmenn og ráðherrar yfir vilja sínum til að breyta þessu ákvæði.
Snæfell mótmælir harðlega öllum hugmyndum um að opna ný veiðisvæði fyrir togveiðarfæri.
Aðalfundur Snæfells óttast að aukinn þrýstingur verði settur á sjávarútvegsráðherra frá útgerðarmönnum togveiðiskipa um að opnuð verði svæði nær landi og inná fjörðum til að auðvelda sókn í ýsu og síld. Fundurinn vísar þar til opnunarinnar sem leyfð var með flottroll í Kolluál sl vetur. Félagsmenn Snæfells vilja með samþykkt þessari fyrirbyggja annað eins slys.
Snæfell skorar á sjávarútvegsráðherra að setja reglur um skötuselsnet t.d. fjölda neta og umhirðu þeirra.
Snæfell vísar þar til reglna um veiðar með þorskanetum og umgengni um fiskimiðin.
Á aðalfundinum var samþykkt að skipa nefnd sem skoðar reglur um stærð krókaaflamarksbáta og hvort breytinga sé þörf.
Stjórn Sæfells skipa eftirtaldir:
Alexander Kristinsson Rifi – formaður
Jóhann Rúnar Kristinsson Hellissandi – gjaldkeri
Gestur Hólm Stykkishólmi – ritari
Bárður Guðmundsson Ólafsvík
Heiðar Magnússon Grundarfirði