Aðalfundur Eldingar – háskólasamfélagið komi með virkum þætti að veiðiráðgjöf

Á aðalfundi Eldingar, sem haldinn var á Ísafirði í gær, 30. september, var samþykkt tillaga Guðmundar Halldórssonar fv. formanns félagsins um aðkomu háskólasamfélagsins að rannsóknum á lífríki hafsins.

Í tillögunni kemur m.a. fram að tímabært sé að rjúfa þá einokun sem ríkt hefur í hafrannsóknum á Íslandi, beina þurfi rannsóknum að því hvernig veiða megi það magn sem veitt er með sem minnstri mengun og eldsneytisnotkun.GudmHalld2-8058-100.jpg Þá þurfi að skoða erfðafræði þorsksins betur. Einnig er í ályktun aðalfundar Eldingar bent á Ísafjörð sem aðsetur fyrir stofnun sem kemur að verkefninu, þar sé mikill þekkingarforði á sjávarútvegi til staðar. Þá mundi slík stofnun vera nauðynleg tenging og styrkja fyrirhugað háskólanám í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða sem hefst 2008 í samvinnu við Háskólann á Akureyri.

Orðrétt er samþykkt aðalfundar Eldingar eftirfarandi:

„Þar sem algjör trúnaðarbrestur er orðin staðreynd milli sjómanna og Hafrannsóknastofnunar hvað varðar fiskistofnana er orðið tímabært að rjúfa þá einokun sem ríkt hefur í hafrannsóknum á Íslandi. Ráðleggingar Hafró á veiðum eru að taka á sig svo alvarlega mynd að vafasamt er að minni sjávarplássin í landinu lifi það af og hætt við að öll sjávarplássin lamist.

Af þessu munu hljótast meiri mannflutningar en áður hafa þekkst og fólk mun neyðast til að fara frá eignum sínum með skuldir á bakinu, flytja í þéttbýlið og skapa þar enn meiri vanda en fyrir er. Hafa Íslendingar efni á að kasta eignum sjávarþorpanna til að stofna borgríki?
Hafró er orðin föst í gömlum kennisetningum sem hafa ýtt vísindum til hliðar eins og til dæmis ofurtrú á togararalli sem önnur vísindi hafa mátt víkja fyrir. Það skal þó viðurkennt að innan Hafró hafa margir góðir vísindamenn starfað og stofnunin býr yfir öflugu gagnasafni rannsókna sem eru margar merkar og geta nýst þjóðinni til þekkingaröflunar á lífríki hafsins kringum landið. Það getur þó enginn talið ásættanlegt að eftir rúmlega tveggja áratuga stjórnun fiskveiða megi einungis veiða þriðjung þess magns af þorski sem veiddur var þegar tímabil virkrar veiðistjórnunar hófst.

Þess vegna er lagt til að háskólasamfélagið verði nýtt til rannsókna á hafsbotninum og lífríki hans, þar með talið rannsóknir á botnlægum fisktegundum. Einnig þarf að beina rannsóknum að því hvernig veiða megi það magn sem veitt er með sem minnstri mengun og neikvæðum áhrifum á andrúmsloftið m.a. með því að lágmarka eldsneytisnotkun. Erfðafræði þorsks verði skoðuð sérstaklega og hvernig hægt er að ná betri stjórn á þorskstofninum. Má þar nefna að rannsókn virts fræðimanns bendir til að eigi færri en þrír þorskstofnar séu kringum landið. Því ætti að beina stjórn veiðanna að hverjum stofni fyrir sig en ekki gefa sér að aðeins einn þorskstofn sé á Íslandsmiðum.

Gild rök hníga að því að ný stofnun með þetta hlutverk hafi aðsetur á Vestfjörðum þar sem sjávarútvegur er undirstaða mannlífs og mikill þekkingarforði er til staðar auk þess sem stofnanir með háskólamenntuðu fólki eru stöðugt að eflast.
Stofnun þessi þarf að hafa umráð yfir rannsóknaskipi og húsnæði með sérstöku tilliti til rannsókna á veiðarfærum og öðrum rannsóknum sem krefjast verulegs athafnasvæðis.

Stofnunin skal gefa veiðiráðgjöf eins og Hafró, en unna á öðrum forsendum með það að markmiði að breikka grunn þeirrar ráðgjafar sem unnið verður eftir. Rannsaka þarf sérstaklega áhrif veiðarfæra á lífríki. Er í því sambandi brýnt að nýta yfirgripsmikla þekkingu sjómanna sem aflað hefur verið með áratuga veiðireynslu. Um ráðgjöfina þarf að myndast visindaleg umræða sem verður upplýsandi bæði fyrir þá sem í greininni starfa og þjóðina alla sem eigandi auðlindarinnar.

Þar sem vitað er að Háskólasetur Vestfjarða mun hefja staðbundið háskólanám í haf- og strandsvæðastjórnun haustið 2008 í samstarfi við Háskólann á Akureyri verður að teljast rökrétt framhald að byggja upp öflugar rannsóknir á haf- og strandsvæðum undir merkjum væntanlegs háskóla á Vestfjörðum.“

Nánar verður gerð grein um aðalfund Eldingar síðar.