Þorskurinn víða til vandræða

Í fyrradag var greint frá því hér á síðunni að einn forsvarsmanna fiskimanna á Nýfundnalandi hefði greint frá því í símtali við skrifstofu LS að menn hefðu orðið varir við mikið af þorski á stóru svæði útifyrir austurströnd Nýfundnalands.

Í morgun hringdi útgerðarmaður lítils togbáts, sem býr syðst á Nova Scotia. Hann hefur til margra ára fylgst með gangi mála hjá íslenskum fiskimönnum og iðulega furðað sig á því hversu lík vandamálin eru sem veiðimenn glíma við.

Í símtalinu kom ýmislegt fróðlegt fram um gang fiskveiðanna á George Bank, sem eru mikil og gjöful fiskimið sem liggja bæði innan kanadísku og bandarísku efnahagslögsögunnar (sjá kort). Í talsverðan tíma hefur verið mikið magn af ýsu á þessum miðum og hún veidd af báðum þjóðunum. Ýsustofninn fer stöðugt vaxandi og því spáð að hann eigi eftir að verða gríðarstór innan skamms. En þorskurinn er til vandræða við ýsuveiðarnar – eins og nú stefnir í á íslandsmiðum. Hann er einungis leyfður sem meðafli og beita fiskimenn öllum ráðum til að forðast hann. Þannig nota kanadísku fiskimennirnir skiljur í sínum veiðarfærum og hafa breytt veiðarfærunum verulega til að þorskurinn sé sem minnstur hluti aflans. Þá eru þeir skyldaðir til að hafa eftirlitsmann um borð sem þeir þurfa að greiða kanadíska ríkinu 450 dollara fyrir á dag. Þessi útgerðarmaður sagði að svo mikið væri af þorski, að ef bein veiði væri leyfð á honum væri hægt að taka fleiri vikna kvóta á einni morgunstund.

Bandaríkjamegin við línuna ákváðu fiskimenn að sleppa því að vera með skiljur á þessu ári. Þetta varð til þess að veiðar þeirra voru stöðvaðar í júní, en meðaflinn af þorski fór aldrei undir 9% af heildaraflanum.

Að mati þessa kanadíska útgerðarmanns er mikið magn af þorski á George Bank og víðar á svæðinu. Vísindamenn þori hins vegar ekki fyrir sitt litla líf að auka kvótana. Skugginn frá hruni þorskveiðanna uppúr 1990 við austurströnd Kanada byrgi þeim enn þann dag í dag sýn á það sem sé raunverulega að gerast á miðunum.

Kort sem sýnir George Bank og hvar fiskveiðilögsögurnar skiptast
GB.tiff